150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það má verða til enn frekari skýringar þá vil ég taka það fram að við vorum aldrei að ræða um það í neinu samhengi að draga úr möguleikum til að samnýta persónuafsláttinn. Hann verður áfram nýtanlegur milli samsköttunaraðila. Þetta snerist allan tímann um samnýtingu þrepanna. Bara svo að allt sé uppi á borðum þá var verið að skoða þann valkost í þeim eina tilgangi að fjármagna sem best lækkun skatta á lágtekjufólk og lægra millitekjufólk. Til að ná endum saman í þeim áætlunum sem voru til skoðunar kom þetta til athugunar og við gerðum grein fyrir því að kostnaðarmatið byggði á því að dregið yrði úr samsköttun. Það er síðan ekki gert eins og hér kemur fram. En ég vil á sama tíma að það sé alveg kristaltært að það hefur áhrif á umfang samsköttunar aðila, umfang samnýtingar þrepanna, að komið sé eins konar gólf með nýja lægsta þrepinu því að heimildin tekur bara til þess að nýta næsta þrep fyrir neðan. Að því leyti til stendur allt það sem er á bls. 107 í fjárlagafrumvarpinu. Það er til áhrifa. Það hefur auðvitað líka áhrif í því sambandi að prósentan í miðþrepinu er aðeins að breytast.

En grunnprinsippið um að sambúðaraðilar geti nýtt persónuafslátt og að þeir geti nýtt vannnýtt skattþrep maka, samsköttunaraðila, stendur. Lagareglan verður áfram alveg óbreytt.