150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg kunnugt um að hv. forsætisnefnd vildi koma í veg fyrir samsvör í ræðustól Alþingis. En mér fannst áhugavert að heyra þingmanninn svara þessu því að ég held að fáir hafi jafn mikla sérfræðiþekkingu á því sviði sem hér starfa nú um stundir. Ég vil aftur taka utan um það að við höfum á undanförnum árum í hv. fjárlaganefnd reynt að koma til móts við lítil heimili í fámennum sveitarfélögum, til að taka utan um rekstur þeirra svo þau verði ekki íþyngjandi sveitarsjóði eins og raun ber vitni allt of víða.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að boða það að ég held að það verði að vera nokkuð ítarleg umræða við þessa fjárlagagerð núna um hvaða leiða við ætlum að leita út úr þessu. Ég veit að hæstv. heilbrigðismálaráðherra er liðsmaður okkar í því og hefur tekið utan um þetta þó að hún hafi ekki verið langan tíma í embætti. Við eigum líka ágæta liðsmenn í samtökum þeirra heilbrigðisfyrirtækja sem bjóða þessa þjónustu, sjálfseignarstofnana, sem við eigum að nýta. En ég afla mér liðsinnis við að við ræðum í tengslum við fjárlagagerðina núna og setjum í farveg hvernig við ætlum að þróa þá þjónustu til lengri tíma og ná betur utan um framlög og rekstur slíkra heimila þannig að þau verði okkur ekki það áhyggjuefni sem þau eru sannarlega í dag.