150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er rétt sem þingmaðurinn kom inn á að víða eru litlar rekstrareiningar mjög erfiðar og þungar. Auðvitað hefur verið brugðist við því í gegnum tíðina, bæði beinlínis af hv. fjárlaganefnd en líka á stundum hreinlega með beinum inngripum af hálfu heilbrigðisráðuneytisins. En eins og hv. þingmaður var í rauninni að segja verðum við að hætta þessu plástraverki. Við verðum að hætta að taka á þessu með smáskammtalækningum. Við verðum að leyfa okkur að fara inn í þá umræðu hvernig við viljum raunverulega hafa þetta og hvernig við viljum bæta rekstrargrunn slíkra heimila. Hvernig viljum við tryggja það að heimilin geti raunverulega starfað og veitt þá þjónustu sem ríkið vill kaupa?

Einn hluti af svarinu gæti legið í því að með því að sveitarfélögin stækka, eins og núna er boðað af hálfu hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, geta þau kannski tekið meiri ábyrgð á rekstri þessara heimila. Það er engin launung á því að ég hef lengi verið talsmaður þess að öldrunarmálin ættu að vera málefni sveitarfélaganna, en ég er hins vegar ekki svo bláeygur að halda því fram að það sé hægt að gera það við það fyrirkomulag sem við erum með í dag og að óbreyttum rekstrargrunni. Það er algerlega útilokað. Til að geta tekið þau skref þurfa sveitarfélögin að hafa meiri slagkraft. Þau þurfa að vera stærri og það þarf að liggja fyrir af hálfu hins opinbera hvaða þjónustu það vill kaupa af heimilunum og hvaða þjónustu eigi að veita á þeim heimilum, íbúum þeirra til hagsbóta.