150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta innlegg og get tekið heils hugar undir með honum að landsbyggðin hefur borið skarðan hlut frá borði þegar kemur að rannsóknarstyrkjum. Ég held að það séu um 35 milljónir ætlaðar fyrir rannsóknir á sýklaónæmi í landbúnaði og ég hefði viljað sjá þá upphæð hærri, sérstaklega í ljósi þess sem hefur gerst og er fram undan í landbúnaðinum, en auk þess er mjög mikilvægt að eiga aðgang að öðrum styrkjum. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni. Það er nauðsynlegt til að við verðum undir það búin þegar hingað fer að berast, eins og við þekkjum, hrátt kjöt, því miður. Það er raunin og það styttist í það.

Önnur hlið á því máli eru okkar hreinu bústofnar, við vitum ekki hvernig þeim kemur til með að reiða af ef hingað bærust einhverjir sjúkdómar sem góðir búfjárstofnar okkar eru viðkvæmir fyrir. Það gæti kostað verulegar fjárhæðir ef það myndi gerast og það kom reyndar fram í fyrirspurn minni við hæstv. landbúnaðarráðherra að ef hingað til lands bærust alvarlegir búfjársjúkdómar þá væri það ríkisins að standa straum af skaðabótum í þeim efnum. Það hefur komið fram og rétt að halda því til haga. (Forseti hringir.) En kjarni málsins er sá að það er mjög mikilvægt að auka rannsóknir í ljósi þess sem fram undan er í okkar mikilvæga landbúnaði.