150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta innlegg. Ég held að þetta sé lækkun um 279 milljónir í þessu frumvarpi og um 237 milljónir vegna búvörusamninga, ef ég fer rétt með. Auðvitað er þetta svolítið á skjön við aðrar atvinnugreinar og hækkanir almennt í fjárlagafrumvörpum, landbúnaðurinn hefur fengið minni fjárveitingar ár frá ári og það sýnir náttúrlega ákveðna stefnu stjórnvalda. Ég held að það sé nokkuð ljóst að landbúnaðurinn er kannski ekki efst á umhugsunarlistanum, ef það má orða það þannig. En við verðum að hlúa að landbúnaði okkar og ég hef sagt að allar þjóðir styðja við landbúnað sinn. Nú í loftslagsumræðunni, sem er að sjálfsögðu mjög mikilvæg, um kolefnisjöfnun og í öllu því er innlend matvælaframleiðsla mjög mikilvæg til að vinna gegn loftslagsvánni að því leytinu til að það dregur úr kolefnissporinu, eins og sagt er. Allir stjórnmálaflokkar eiga að taka sig saman í þeim efnum og styðja við íslenskan landbúnað og reyna að auka íslenska landbúnaðarframleiðslu sem mest. Þess vegna hef ég aldrei skilið þennan mikla áhuga sumra stjórnmálaflokka á því að flytja inn sem mest af matvælum en í sömu andrá tala þeir um mikilvægi þess að draga úr kolefnisspori. Það er svolítil (Forseti hringir.) þversögn í því. En ég tel afar brýnt að við tryggjum að landbúnaðurinn fái eðlilegar fjárveitingar.