150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er kannski við hæfi að ég ljúki þessari umræðu af hálfu óbreyttra þingmanna í dag þar sem ég er að færa mig um set úr fjárlaganefnd eftir sex ára dvöl held ég. En ég verð að taka undir mjög margt sem hefur komið fram í dag hjá félögum mínum. Ég er afskaplega ánægð með þetta fjárlagafrumvarp, enda endurspeglar það markmið þessarar ríkisstjórnar. Við erum að reyna að takast á við þá niðursveiflu sem við horfumst nú í augu við vegna aðstæðna sem við þekkjum, bæði ferðamennskuna og loðnubrest, eins og hefur verið reifað í dag. Það gerum við m.a. með því að sýna á spilin varðandi fjárfestingu í því sem við gjarnan tölum um sem innviði, sumir telja að við höfum gjaldfellt það orð, þ.e. fjárfestingu í grunnþjónustu ríkisins, kannski á maður bara að segja það. Það gerum við með því að draga úr þeim afgangi af rekstrinum sem við höfðum áður gert ráð fyrir. Það er hlutverk okkar og við höfum litið á það þannig að þegar svona árar þá tökumst við á við það með akkúrat þeim aðgerðum sem m.a. má finna í fjárlagafrumvarpinu, með því að setja smáinnspýtingu í kerfið.

Það er mjög margt sem segir að við séum á réttri leið, ég held að það hljóti að vera þegar við erum með sögulega lága vexti. Það er líka margt sem spilar með okkur. Með atvinnulífinu og stéttarfélögunum tókust svokallaðir lífskjarasamningar og þar kom ríkisstjórnin töluvert að, það eru líklega einir 16 milljarðar sem þær aðgerðir kosta eða eru innlegg frá ríkisstjórninni til að koma þeim samningum á. Það hefur sitt að segja til að viðhalda bæði félagslegum og efnahagslegum stöðugleika. Þó að við setjum töluvert mikla fjármuni, eða í kringum 80 milljarða, í innviðafjárfestingar og það hafi ekki verið svo mikið í afskaplega langan tíma þá vitum við að þörfinni er hvergi nærri fullnægt. En við erum sannarlega á réttri leið.

Mig langar aðeins að koma inn á það, í ljósi þess að ég er að færa mig um set, að ég held að fjárlaganefndarfólk eigi að fylgja því eftir sem við höfum rætt um áður, þ.e. nú er komin reynsla á fjárlagavinnuna frá upphafi til enda með sömu ríkisstjórn sem hefur lagt fram málin eftir sama ferli og á vorönninni ætti kannski að fara í gegnum hvað það er sem við viljum gera öðruvísi. Þá meina ég að það verði mikið samráð með ráðuneytinu, með nefndinni, jafnvel þinginu, alla vega var forseti búinn að ámálga að gera það á einhvern slíkan hátt. Ég held að við ættum að gera það vegna þess að það eru skiptar skoðanir um framkvæmdina. Þetta er alltaf að verða gagnsærra, hægt og sígandi, það gerist ekki mjög hratt en það gerist þó. Inn á vef fjármálaráðuneytisins er komin miklu skýrari og skemmtilegri framsetning á frumvarpinu og fylgigögnum þess þannig að það er að verða auðveldara að sjá á bak við eins og oft hefur verið talað um. En okkur í fjárlaganefnd hefur stundum fundist að okkur væri þröngt skorinn stakkur og við fengjum úr litlu að moða og það þarf líka að breyta verklagi þannig að þingið fái raunveruleg völd hvað þetta varðar en taki ekki bara við eins og hefur oft verið í gegnum tíðina. Ég brýni ykkur í því að fylgja því eftir sem við höfum áður rætt.

Mig langar að koma inn á nokkur atriði, þetta er ekki langur tími, sem vert er að segja frá og er að finna í fjárlagafrumvarpinu. Það hefur verið eitt af forgangsmálum okkar Vinstri grænna að hafa fæðingarorlofskerfið þannig að bæði verði orlofið lengra og greiðslur hærri. Miðað við það sem hér er boðað er hvort tveggja að verða að veruleika, hægt og sígandi. Heildarútgjöldin verða í kringum 20 milljarðar árið 2022 samanborið við 10 milljarða árið 2017 á verðlagi hvors árs þannig að við erum að tvöfalda þau og það er gríðarlega mikilvægt fyrir barnafjölskyldur. Sem betur fer er aukning í því að fólk taki fæðingarorlof og það er afskaplega ánægjulegt. Foreldrar 91% barna sem fæddust 2015 fengu greitt fæðingarorlof úr Fæðingarorlofssjóði en á síðasta ári voru það 95%, þannig að hlutfallið er kannski að fara eins hátt og það mögulega gæti gert.

Hér hefur verið rætt töluvert um loftslagsmál og var gert í gær líka í ræðum um stefnuræðu forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Það hlýtur að teljast afar jákvætt í því umhverfi sem við horfumst í augu við að framlög til umhverfismála hækka núna milli áranna 2019 og 2020 um 1 milljarð. Það fer líka tæpur hálfur milljarður til loftslagstengdra verkefna þannig að við stöndum við það sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Fyrst og fremst snýr þetta auðvitað að loftslagsmálunum en við erum einnig að tala um rannsóknir og vöktun á svæðum í náttúrunni upp á stórar fjárhæðir, aukna landvörslu og fleira slíkt svo að það er verið að spýta vel í þarna.

Mig langar líka að koma inn á framhaldsskólann því að hér hefur verið sagt að þar séu framlög að lækka en þegar málaflokkurinn er skoðaður í heild er ekki svo. Framlögin hafa hækkað úr 1.732.000 í 1.819.800 kr. á hvern nema þannig að þau eru að hækka. Samkvæmt fjármálaáætlun á þetta að halda áfram svo að frá árinu 2017 erum við búin að auka fjárframlög til framhaldsskólakerfisins um 1,3 milljarða. Það getur ekki talist samdráttur þegar um slíkar fjárhæðir er að ræða. Við þurfum að standa vörð um það, enda ekkert í rauninni mikilvægara en menntun fólks til að við getum tekist á við þau verkefni sem eru fram undan.

Við þurfum ekki bara að tala um að starfsnámið þurfi aukinn styrk, við þurfum að standa við það. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að efla iðn-, starfs- og verknám þannig að reiknilíkan framhaldsskólanna taki meira mið af því en verið hefur, það hafa miklar athugasemdir verið gerðar við það. Í þetta er bætt 172 milljónum sem hefur kannski eitthvað að segja. Svo eru margar aðgerðir sem við þekkjum og hafa verið í fjölmiðlum undanfarið sem snúa að skólamálum. Og af því að það er sífellt verið að tala um OECD og samanburðinn í háskólanum þá kom það fram hjá ráðherra á dögunum að það hefði verið sent beinlínis til OECD hvernig þeir gætu hjálpað okkur að mæla þau viðmið og það kom fram á fundi hennar með fjárlaganefnd, ég held ég fari rétt með, að það væri eiginlega ómögulegt að gera þetta. Við eigum eftir að sjá hvernig því vindur fram en málið er komið a.m.k. í þann farveg.

Síðan er það leiguhúsnæði sem má ekki gleyma. Það er eitt af því í frumvarpinu sem kemur þeim sem kannski minnst hafa á milli handanna til góða. Það er líka partur af lífskjarasamningunum að stofnframlög ríkis og sveitarfélaga verða líklega frá árinu 2016 og fram til ársins 2023 á bilinu 60–75 milljarðar þannig að þetta eru stærstu og umfangsmestu húsnæðisframkvæmdir sem efnt hefur verið til af hálfu stjórnvalda í Íslandssögunni. Við erum að reyna okkar besta til að koma til móts við þá sem hafa kannski ekki getað komið sér þaki yfir höfuðið sómasamlega. Þeir sem eru m.a. að reisa þessar íbúðir og eru nú þegar búnir að því er íbúðafélagið Bjarg og fleiri sem eru í óhagnaðardrifnum byggingum.

Svo er það samgöngumálin. Þau hækka núna um 4,5 milljarða frá þessu ári sem er 11% hækkun. Það eru gríðarlega háar tölur. Stærsti hlutinn fer til framkvæmda og viðhalds, síðan eru framlög til annarrar þjónustu og annarra verkefna í samgöngumálunum. Svo eru fjárveitingar sem tengjast byggðaáætlun sem koma inn í þetta líka. Ég vil biðja fjárlaganefndarfólk að hafa auga með peningunum í sóknaráætlanir, að þær upphæðir lækki ekki. Það er ákall um að þær hækki frekar en hitt og við höfum talað fyrir því að færa verkefni (Forseti hringir.) yfir til landshlutasamtakanna í gegnum sóknaráætlanir. Það fara peningar inn í byggðaáætlun en þeir fara líka beint til sóknaráætlana.