150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er alveg sammála honum í því að við þyrftum oft og tíðum að hafa mun ítarlegri gögn en við höfum. Ég sagði áðan að við værum á réttri leið. Það er verið að opna þetta betur. Fjármálaráðuneytið er að sýna betur á spilin, gera þetta grafískara, þægilegra til vinnu og allt það. En ég get alveg tekið undir það að maður verður óþolinmóður þegar maður er að vinna með doðranta sem eru ekki skemmtilegir aflestrar eins og fjárlagafrumvarpið er. Það er tyrfið og okkur sem erum búin að starfa í nefndinni í kannski nokkur ár finnst það svo sem ekkert auðveldara nema maður veit sirka hvernig á að fletta því.

Þó get ég sagt þingmanninum, en eins og hann benti á hef ég setið í nefndinni fyrir og eftir lög um opinber fjármál, að mér finnst við vera að færast í áttina að betra fyrirkomulagi. Við í fjárlaganefnd fórum til Svíþjóðar og hittum þar bæði ríkisendurskoðanda og fjárlaganefndarfólk og fleiri og mér fannst það mjög áhugavert, margar upplýsingar sem maður tók með sér þaðan. En mér fannst við alltaf allt of bjartsýn að halda að við gætum umbreytt sniglinum sem opinbert kerfi er á þremur árum. Mér fannst það mjög óraunhæft, enda hefur það komið á daginn, það gengur ekkert upp. Okkur miðar mjög hægt en okkur miðar áfram. Það sem ég endaði áðan á að segja var að mér finnst svolítið eins og við tökum við fullbúnu verkefni sem við eigum bara að afgreiða, mér finnst vanta að nefndin hafi meira svigrúm innan rammans til þess að vinna með þegar hún er búin að fá gesti, fá ábendingar og geti tekist (Forseti hringir.) á við það sem þar kemur fram í staðinn fyrir að hefðin hefur verið á Íslandi, bæði fyrir og eftir breytingu, að nánast allt er nýtt. En það er reyndar kannski ekki gert núna.