150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði raunar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í annað, en þar sem ráðherra gerði að umtalsefni hagspár, forsendur þessarar fjárlagagerðar og hagstjórn hins opinbera, get ég ekki staðist að spyrja aðeins nánar út í það. Mér leiðist alltaf sú tilgerð í pólitík þegar reynt er að setja hlutina í annað ljós en þeir raunverulega eru í. Það er talað um að ríkisfjármálin hafi leikið lykilhlutverk í hagstjórninni. Það er einfaldlega rangt. Það var lagt af stað með fjármálaáætlun sem gerði ráð fyrir gríðarlegri útgjaldaaukningu, sem var þensluaukandi og gagnrýnd fyrir það í upphafi, en síðan þegar hagkerfið fór í mikinn slaka var það skyndilega orðið „svigrúm“ fyrir þessa útgjaldaaukningu. En ríkissjóður hefur einfaldlega ekki efni á henni. Það er staðreyndin. Helst er ríkissjóður í dag gagnrýndur fyrir of mikla aukningu frumútgjalda ríkissjóðs miðað við stöðu hagkerfisins en allt of litla áherslu á fjárfestingar.

Forsætisráðherra segir: Við byggjum á opinberum hagspám en ekki tilfinningum einstaklinga. En þá er spurningin: Væri ekki rétt að fara eftir lögum um opinber fjármál? Það er nefnilega ekki bara hagspá Hagstofunnar sem hægt er að fara eftir, og raunar ber að fara eftir, við þessar kringumstæður því að við eigum að sýna varfærni í opinberum fjármálum. Það er tekið sérstaklega fram í lögum um opinber fjármál að við mat á hagrænum forsendum fjárlaga skuli horft til fleiri aðila, opinberra og annarra, svo sem greiningardeilda bankanna. Þá stendur bara eftir þessi einfalda staðreynd: Hagspá Hagstofunnar er sú langbjartsýnasta. Horfum síðan á veruleikann, því ég treysti því að ríkisstjórn sem hælir sér jafn mikið af hagstjórn kunni að lesa í aðstæður í hagkerfinu á hverjum tíma, en svo virðist ekki vera, því að hún kemur enn eina ferðina með allt of bjartsýnar forsendur við fjárlagagerðina til þess að geta slegið um sig með mikilli útgjaldaaukningu, og ætlar svo að sópa því undir teppið síðar í vetur þegar (Forseti hringir.) við förum í að leiðrétta vitleysuna í fjárlagaumræðunni.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Finnst henni þetta boðleg vinnubrögð?