150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska nýjum dómsmálaráðherra hjartanlega til hamingju með nýja starfsvettvanginn. Við væntum alls hins besta og höfum enga ástæðu til að ætla annað en að hún sýni sömu djörfung og dug á þeim starfsvettvangi og hún hefur gert hingað til.

Það er eitt sem mér hefur verið mjög hugleikið, eitt af mörgu því að málaflokkar dómsmálaráðherra eru risastórir eins og náttúrlega flestra annarra hér. Þeir lúta að öryggi okkar borgaranna og að svo mörgu öðru, en mig langar sérstaklega að taka til fíknivandann sem við horfumst í augu við núna. Það er gjörsamlega kókaínfaraldur í landinu, hreint út sagt. Lögreglumenn sem fylgjast með þessu átta sig betur á því en við almennt hver þróunin er úti í samfélaginu sem lýtur að framboði á fíkniefnum og eftirspurn eftir þeim. Þegar maður horfist í augu við það, og við sjáum öll og verðum að viðurkenna að það er hreinlega faraldur á einhverju sviði, þá langar mig eiginlega að vísa því til hæstv. dómsmálaráðherra hvort ekki þurfi að bregðast við slíku með mjög öflugum aðgerðum, einhverju miklu öflugra en því, eins og dómsmálaráðherra benti réttilega á, að búið er að gefa í. Eru ekki til einhver úrræði til að gefa enn þá meira í? Við erum að missa unga fólkið okkar fyrir framan augun á okkur á ótrúlega dapurlegan hátt og það er í okkar höndum núna og hæstv. dómsmálaráðherra, í samstarfi við ríkisstjórnina, eðli málsins samkvæmt, að gera eitthvað virkilega róttækt í málunum, eins róttækt og váin er í rauninni sem við horfumst í augu við.