150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Þá vitum við það, að það sem er sagt í nefndinni — nefndin fær upplýsingar um hvað þarf, m.a. frá Matvælastofnun og öðrum eftirlitsaðilum — skilar sér ekki inn í fjárlagafrumvarpið. Þetta er það sem maður hafði áhyggjur af. Ég nefndi það í ræðu þegar var verið að ræða málið um fiskeldi í þingsal að sporin hræða. Það er ítrekað vandamál, eftirlit hefur setið á hakanum yfirleitt þegar kemur að stefnu ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn situr í. Maður hefur séð það. Það er partur af bákninu, partur af því sem þarf að minnka. Eftirlit er eitthvað sem hefur setið á hakanum og þess vegna sagði ég í ræðu að sporin hræða, ég treysti því ekki, sama hvað menn segja í atvinnuveganefnd, jafnvel eftir að hafa fengið upplýsingar um hvað þarf til að náttúran njóti vafans, skili sér í eftirliti. Og nei, það þurfti ekki hvað sem er, þau báðu ekki um endalaust fé. Það var nóg, þau sögðu hvað þyrfti til að geta sinnt þessu eftirliti.

Ég var að reyna að finna þetta í gögnum en ég mun ræða þetta í atvinnuveganefnd þegar við fáum umsagnir. En nei, það voru einhver X-stöðugildi sem þurfti, það var einhver X-fjármögnun sem þurfti til að geta sinnt eftirliti með fiskeldi þannig að náttúran myndi njóta vafans. Það var einhver X-tala. Mér finnst áhugavert að hún hafi ekki skilað sér inn á borð og að ráðherra upplifi það sem svo að það sé aldrei nóg, að það sé alltaf verið að biðja um meira. Nei, það var X-tala. Ég ráðlegg ráðherra að tala við formann atvinnuveganefndar um þetta, hvað það var sem eftirlitsaðilar, sem komu fyrir nefndina við vinnslu fiskeldisfrumvarpsins, töldu að væri nóg, það var einhver X-tala. Ef nefndin á að geta staðið við það sem hún segir í þingsal um hvað þarf til að geta sinnt eftirliti þarf þetta að standa því að annars er ekki hægt að treysta því sem nefndin segir í þingsal.