150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Jú, það er auðvitað mjög gott og það er gott kerfi fyrir utan Reykjavík og ekki eru miklar stíflur þar. En við sitjum samt alltaf föst á leið í og úr vinnu.

Það er annað sem veldur mér miklum áhyggjum og það eru fyrirhuguð veggjöld. Ef rétt er, að komið gæti vegaskattur upp á 400.000 kr. á hvern bíl á ári, þá segi ég bara: Guð hjálpi okkur. Vegna þess að það mun bitna langmest á þeim sem síst skyldi, fólki sem hefur verið talin trú um í þessum sal að það sé að fá skattalækkanir. En þetta yrðu einar mestu skattahækkanir sem settar yrðu á þá einstaklinga, fólk sem á gamlar bifreiðar sem eyða miklu og það reynir að halda gangandi, fólk sem reynir að eiga fyrir bensíni út mánuðinn. Og síðan ætlum við að setja skatta á það fólk fyrir að keyra um göturnar. En við gleymum því að bifreiðaeigendur borga í dag um 80 milljarða í skatta. Af þeim fer rúmlega helmingur í vegagerð, rosalega flott, láta bara bifreiðaeigendur borga meiri og meiri skatta, fólk sem getur ekki einu sinni framfleytt sér í dag. Er verið að búa til slíkt kerfi að einkabíllinn sé fyrir þá útvöldu sem hafa efni á honum, þá ríkari, en hinir eiga að fara, hvað, með borgarlínu? Hvernig á einstaklingur að fara að sem fer með borgarlínu og þarf að fara hverfin á enda til að ná í barnið sitt í dagvistun og svo aftur heim til sín? Hvernig á borgarlínan að leysa það vandamál? Ég segi fyrir mitt leyti: Við verðum að hugsa málið fyrir alla en ekki fyrir fáa útvalda.