150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

staða ríkislögreglustjóra.

[15:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Áfram um ríkislögreglustjóra, Harald Johannessen. Ég byrja kannski á því að endurtaka einfaldlega þá spurningu sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson bar fram áðan: Nýtur ríkislögreglustjóri trausts hæstv. dómsmálaráðherra eins og sakir standa?

Hæstv. dómsmálaráðherra ræddi það í óundirbúnum fyrirspurnatíma rétt áðan að hún hefði rætt orð ríkislögreglustjóra um spillingu á fundi með honum í dag en upplýsti okkur ekki um hver svör hans voru þannig séð fyrir utan það að hún tók fram að hann hefði dregið úr orðum sínum.

Ég las það viðtal sem hæstv. ráðherra er væntanlega að vísa í þar sem hann sagði að almennt væri ekki hægt að tala um spillta lögreglu, það hafi hann aldrei sagt. Hins vegar segir ríkislögreglustjóri í þessu margumtalaða viðtali, með leyfi forseta:

„Án þess að ég vilji nefna tilvikin geta menn skoðað þau“ — þ.e. tilvikin um spillingu — „og þeir sem þekkja til vita um hvað ég er að tala. Ég hef líka rætt um að það fari ekki saman að vera lögreglumaður og vera í einkarekstri og jafnvel að selja búnað til lögreglunnar eða að vera í ferðaþjónustu. Það á að vera hafið yfir allan vafa að lögreglumenn séu ekki að gæta eigin hagsmuna. Þetta hef ég rætt um innan lögreglunnar og það eru ekki allir sáttir við þessa orðræðu mína.“

Þetta segir að ríkislögreglustjóri í þessu viðtali. Ég vil bæta við spurningu mína, um hvort ríkislögreglustjóri njóti trausts hjá hæstv. dómsmálaráðherra: Þekkir hún til þessara dæma og voru þau rædd á fundi hennar með ríkislögreglustjóra?