150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

bráðamóttaka Landspítalans.

[15:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum orðið vör við það, þjóðin, að í brennidepli fjölmiðla hafa verið málefni bráðaþjónustunnar á Landspítalanum. Það er ljóst að það er mikill þungi í starfinu þar og þrátt fyrir milljarðaaukningu til Landspítalans og heilbrigðiskerfisins á undanförnum árum hefur okkur ekki gengið vel að stytta biðlistana og aðstaðan á bráðadeildinni er óviðunandi. Ég fór þangað sjálfur í morgun, kynnti mér stöðuna og hitti yfirmenn sem sögðu mér frá því hvar skórinn kreppir helst. Það er fráflæðisvandi sem er sífellt til vandræða. Á Landspítalanum eru nú þegar lokuð 40 hjúkrunarrými sem jafngilda hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Þetta er fyrst og fremst vandamálið og að öðru leyti skortur á hjúkrunarfræðingum. Það eru miklar áhyggjur af því að starfskjör hjúkrunarfræðinga verði skert frá því sem nú er þegar við þurfum að fara aðrar leiðir og reyndar þyrftum við að fara þá leið að fá þjóðarsátt um að gera starf hjúkrunarfræðinga meira aðlaðandi, bæði í launum og starfskjörum.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvað hún hyggist gera til að vinna bug á þeim bráðavanda sem nú er, sem ég held, eftir þau samtöl sem ég átti í morgun, að þurfi að gerast núna strax. Þetta ástand á bráðaþjónustunni kallar á aðgerðir, ekki nefndir. Mig langar að heyra hvað ráðherrann hefur fram að færa í því.