150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

jarðamál og eignarhald þeirra.

[15:21]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, kærlega fyrir að hefja umræðuna. Þetta er tilfinningalegt mál. Okkur þykir öllum vænt um landið okkar og ég get alveg séð fyrir mér að þetta gæti orðið jafn mikið tilfinningamál og umræðan varð um orkupakka þrjú. Jarðir og lendur á Íslandi — það er alveg þess vert að skoða hvort við þurfum, einmitt í ljósi þess að við viljum vera fullvalda þjóð í eigin landi, að endurskoða þau mál. Ég get ekki alveg tekið undir allt í þingsályktunartillögunni sem var lögð fram af málshefjanda og fleirum á sínum tíma því að ég held að við þurfum að skoða í upphafi hvert markmiðið sé. Á markmiðið að vera að koma í veg fyrir að útlendingar eignist land? Á að koma í veg fyrir að of mikið af landi safnist á fárra hendur? Á að koma í veg fyrir að bújörðum fækki enn frekar? Eða á að koma í veg fyrir auðkýfinga, hverra landa sem þeir eru? Það þurfum við að hugsa vandlega. Þetta geta verið mikil inngrip á markað og markaðurinn er markaður og inngrip eru oft viðkvæm. En það er alveg sama hvaða markmið við sammælumst um, því verður varla náð með vistarbandi. Mér leist mjög vel á svör forsætisráðherra áðan. Ég vildi benda henni sérstaklega á þau flottu landupplýsingakerfi sem við eigum nú þegar og gætum nýtt okkur í þessari vinnu og í betri skipulagsmálum til framtíðar. Við erum með LUKR-kerfi Reykjavíkurborgar, Granna nefni ég, og við eigum þau kerfi. Það er bara spurning um að hafa réttu gögnin og réttu upplýsingarnar.

En varðandi eyðijarðir og annað þess háttar (Forseti hringir.) vil ég benda á að jarðir eru að fara í eyði án nokkurrar aðstoðar útlendinga.