150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég útskýrði í fyrra andsvari, og hefur raunar ítrekað komið fram í máli mínu, er að við höfum talið nauðsynlegt að Alþingi komi að þessu máli til að tryggja rétt aðstandenda þeirra sem eru látnir, þ.e. að þeir séu í raun jafnsettir þegar kemur að bótum frá ríkinu og hinir sem enn eru á lífi. Það er ein af grundvallarástæðunum fyrir framlagningu þessa frumvarps.

Hv. þingmaður spurði um Erlu Bolladóttur. Það er alveg rétt að þessar bótagreiðslur taka mið af sýknudómi Hæstaréttar frá því í fyrra sem átti við um fimm manns. Erla Bolladóttir var ekki þar á meðal, ég fór yfir það í ræðu að svo var ekki. Frumvarpið á því eingöngu við um fimm aðila, þ.e. þá þrjá sem eftir lifa og aðstandendur þeirra tveggja sem eru látnir.