150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef átt í smávandræðum með þetta mál frá því að ég heyrði af því fyrst og ekki batnaði það nú við að lesa það. Það eru annars vegar þær athugasemdir sem hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir og Brynjar Níelsson hafa minnst á, þ.e. samhengið, ef ég umorða ekki of mikið, við það hvernig hlutirnir eiga að virka samkvæmt lögum nú þegar. Ég reyni að forðast það að fara út í efnisatriði Guðmundar- og Geirfinnsmálsins enda myndi nóttin engan veginn endast okkur til að ræða það, jafnvel ekki þótt margar væru, þar sem þetta er afskaplega viðamikið og hryllilegt mál. Þegar kemur að þessari einu spurningu um bætur til fórnarlamba kerfisins, eins og ég vil kalla sakborningana og aðstandendur þeirra, finnst mér svolítið vanta lykilpunktinn í alla umræðuna sem er ekki bara hvað fórnarlömbin, eins ég kalla þau, eiga skilið að fá í bætur heldur hvað hafi orðið um gerandann, íslenska ríkið, lögregluna, saksóknara, dómara, fjölmiðlamenn, þingmenn, ráðherra, kjósendur, Íslendinga, réttarríkið, lýðveldið Ísland sjálft.

Það að þessu hafi verið leyft að gerast á sínum tíma er nógu hneykslanlegt út af fyrir sig. Það hvernig samfélagið eða stór hluti þess, hér inni sem utan, brást við því er hugsanlega hneykslanlegra. Hryllilegir hlutir gerast á hverjum degi en maður vonar að þegar þeir gerast standi siðmenntuð samfélög í lappirnar og bregðist rétt við, stöðvi stríðið, finni þann sem ber ábyrgð á því og dragi hann til ábyrgðar.

Ég veit og ber virðingu fyrir því að hæstv. forsætisráðherra vill vel með þessu máli, ég hef enga ástæðu til að trúa öðru. Greinargerðin ber það með sér og sömuleiðis, hygg ég, umræðan í þingsal, bæði frá hæstv. ráðherra og öðrum sem hafa talað. En að mínu mati snýst þetta ekki aðeins um fórnarlömbin sjálf. Þetta snýst um réttarríkið og hvað kom fyrir réttarríki okkar Íslendinga á þessum tíma og hvernig réttarríkið brást í því að bregðast við á einhvern hátt sem mögulega væri hægt að kalla sanngjarnan eða heilsteyptan.

Mig langar því að víkja aðeins að mjög ágætu þingmáli sem er náskylt þessu en að ég tel ívið betra. Þótt spurningin um bætur til aðstandenda fórnarlambanna og fórnarlambanna sjálfra sé mikilvæg þá er önnur sem er að mínu mati mikilvægasta spurningin. Það er einmitt þingsályktunartillaga hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur og Samfylkingarinnar um að fara í rannsókn á því hvernig farið var með vald í þessum málum. Það er svona tillaga sem maður les einu sinni og veltir fyrir sér: Er ekki löngu búið að þessu? Er ekki löngu búið að skoða það allt saman?

Virðulegur forseti. Við það að kynna mér þetta mál í gegnum tíðina hefur mér einfaldlega ekki fundist sem það sé kominn neinn botn í það. Það er kominn botn í það, held ég meðal langflestra, að vissulega voru fórnarlömbin saklaus. Ég held að það sé í meginatriðum óumdeilt í dag að þarna áttu pyndingar sér stað. Ef við lítum á Guantanamo-flóa og allt það þá köllum við það pyndingar, af hverju ætti ekki að kalla þetta pyndingar? Hver nákvæmlega er eðlismunurinn? Einangrun mánuðum saman og lengur, vatnspyndingar beinlínis, drukknun, þetta eru pyndingar, virðulegi forseti, sem gerðust í réttarríkinu og lýðveldinu Íslandi. Það finnst mér ekki enn hafa verið dregið nógu skýrt fram þannig að það verði hin svokallaða opinbera saga að lýðveldið Ísland hafi staðið í fæturna, þó ekki nema væri árið 2019 eða 2020, og rannsakað málið algerlega á þann hátt sem þarf að rannsaka það og komist að þessari annars augljósu niðurstöðu. Það er það sem ég vil sjá gerast. Ég er ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að fórnarlömbin fái bætur fyrir þá meðferð sem þau þurftu að þola heldur finnst mér bara að við megum ekki gleyma því að það var gerandi þarna og hann var Ísland, réttarríkið Ísland.

Ég ætla að láta þetta duga, virðulegi forseti. Ég vildi koma þessu að við 1. umr. Ég vona innilega að lexían af Guðmundar- og Geirfinnsmálinu verði ekki inn í framtíðina, að samkvæmt hinni svokölluðu opinberu sögu Íslands geti svona bara gerst og jú, fórnarlömbin fengið bætur en gerandinn sjálfur sleppi. Það er lexía sem ég vil helst ekki læra og vona að ég þurfi ekki að gera.