150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Skattgreiðendur eru líka kjósendur og kjósendur veita aðhald. Ef það eru ekki kjósendur sem veita misbrigðulum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum aðhald, hverjir eiga þá að gera það? Ég vil senda þau skilaboð til skattgreiðenda, og þá kjósenda, að ríkisvaldið megi ekki bregðast. Skattgreiðendur geta líka orðið fyrir því, hinn almenni kjósandi, að kerfið bregðist þeim og við megum ekki byggja upp þannig kerfi að það bregðist og fari gegn grundvallarmannréttindum og grundvallarprinsippum í íslensku réttarkerfi.

Þó að ég og hv. þingmaður séum sammála um að þetta mál eigi ekki heima hér ætla ég samt að virða það við forsætisráðherra að hún er að reyna að koma skikki á málið. Hún er bara að fara ranga leið. Mér finnst að hún mætti hlusta á það að hún er að fara ranga leið. Ég virði það þó við hana að hún er að reyna að leiðrétta allt þetta misrétti. Ef aðhaldið kemur ekki frá kjósendum, hvaðan á það þá að koma? Ég tel að við eigum að senda út þau skilaboð að það muni kosta ríkisvaldið, muni kosta okkur stjórnmálamennina, ef við stöndum okkur ekki í stykkinu við að byggja upp kerfi sem er réttlátt, gagnsætt og mannúðlegt. Þess vegna finnst mér skipta máli hvernig við bregðumst við nákvæmlega í þessu máli.