150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir þessa umræðu. Ég gat ekki annað en hnotið um það þegar þingmaðurinn benti á að það ætti að vera refsiminnkandi fyrir þá sem eru teknir með neysluskammta ef ég skildi hann rétt. En þá hljótum við að horfa á þá sem fá löglega lyf úr apótekum með lyfseðli, sterk verkjalyf, ópíóíða, alls konar sterk lyf. Fólk getur orðið háð þessu og fer svo yfir í önnur efni. Hvernig á að refsa því fólki? Er hægt að refsa því? Tökum sem dæmi einstakling sem er á biðlista eftir aðgerð í heilt ár. Ég prófaði það, það tók mig hálfan mánuð eða þrjár vikur að venja mig af verkjalyfjunum, sterkum verkjalyfjum, með öllu. Ef ég hefði haft „tendens“ í mér að verða fíkill, hvar hefði ég staðið þá? Ætti að refsa mér fyrir það ef ég hefði farið út af brautinni og dottið í fíknina? Ég bara spyr. Hvernig eigum að tækla svona hluti?