150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að koma í andsvar við hv. þm. Brynjar Níelsson í þessu máli. Ég ætlaði eiginlega bara að leyfa þessari umræðu að fara fram hjá mér þar sem ég sæti í hliðarherberginu. En svo er það bara svo freistandi að koma vegna orða hv. þingmanns um að ef umgengnisforeldri skili ekki barni til baka úr umgengni til lögheimilisforeldris komi bara lögreglan umsvifalaust og sæki barnið. Það er ekki raunveruleikinn í dag og (Gripið fram í.) hefur ekki verið. Það getur vel verið að það hafi verið fyrir tíu árum en það hefur alla vega ekki verið síðustu tíu ár. Það virðist vera sem stjórnkerfi okkar hafi ákveðið að þegar foreldrar deila um umgengni sé það ekki vanræksla gegn barni. Þegar foreldrum er algerlega fyrirmunað að setjast niður og ná sáttum um umgengni og átök verða það mikil að það bitnar harkalega á barni hafa bæði Barnavernd og lögregla tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert. Þetta er bara því miður staðan í dag og hefur verið síðasta áratug. Þetta er auðvitað alveg ótækt. Þegar engin ástæða er til að tálma umgengni eða skila ekki barni úr umgengni, þegar það er ekkert ofbeldi, engin vanræksla, engar hættulegar aðstæður fyrir hendi, þá er svona framkoma gagnvart barni ekkert annað en ofbeldi. En stjórnvöld hafa ákveðið að gera þetta. Það stendur hvergi í lögunum að þetta eigi að vera svona. Ég vildi bara upplýsa hv. þingmann um þetta.