150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi.

182. mál
[16:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir þessa þingsályktunartillögu og framsögu. Mig langar eiginlega bara að byrja eins og hv. þingmaður gerði sem talaði hér á undan mér: Getum við ekki öll verið sammála um að Akureyri er einmitt miðstöð norðurslóðamálefna?

Ég velti fyrir mér hvað nákvæmlega fælist í þingsályktun um að Akureyri skuli fest í sessi sem slík miðstöð, en eins og hv. flutningsmaður kom ágætlega inn á er gríðarlega mikil þekking á málefnum norðurslóða á Akureyri og ég hef litið á Akureyri sem höfuðborg norðurslóðamála. Tækifærin sem felast í því fyrir íslenskt samfélag og ekki síður fyrir Norðurland og Akureyri að markaðssetja sig sem slíkt eru gríðarleg. Við sáum það vel á 2.000 manna ráðstefnu í Hörpu þar sem fólk kemur frá öllum heimshlutum til að fjalla um málefni norðurslóða.

Áherslunum sem við höfum sett á oddinn í formennskutíð okkar í Norðurslóðaráðinu var vel að merkja komið greinilega á framfæri, og ég minnist þess innan utanríkismálanefndar, þ.e. að leggja sérstaklega áherslu á það að í formennskutíð okkar myndum við horfa til þeirrar miklu þekkingar sem skapast hefur á Norðurlandi og að rannsóknastofnanir okkar og háskólasamfélag fái notið formennskutíðarinnar, ekki bara með verkefnum sem eiga sér stað akkúrat meðan á formennskunni stendur heldur líka til að byggja undir þann grunn til að þau geti haldið áfram. Ég held að tækifæri okkar í norðurslóðamálum, þegar kemur að vísinda- og rannsóknarsamstarfi, nýsköpun og nýrri hugsun í umhverfis- og norðurslóðamálum, séu mikil. Og það get ég sagt, virðulegur forseti, að það er í rauninni sá auður sem ég myndi vilja sjá virkjaðan í samhengi norðurskautsmálanna, þrátt fyrir að hingað til lands hafi komið ágætur ráðherra frá Bandaríkjunum sem talaði svolítið um norðurskautið eins og hlaðborð alls konar auðlinda sem hægt væri að nýta. Mín persónulega skoðun er að meira vit sé í því fyrir okkur öll að nýta og virkja hugvitið. Í því samhengi held ég að Akureyri spili stórt hlutverk, Háskólinn á Akureyri, Norðurslóðanetið og þær rannsóknastofnanir sem þar eru.

Ég held að þessi þingsályktunartillaga sé ágæt til síns brúks. Hún hvetur alla vega til umræðu um norðurslóðamál og hlutverk Akureyrar í þeim efnum. Ég get sagt það að þegar ég hóf störf á Alþingi og var að setja mig inn í norðurslóðamálin í tengslum við það að vera forseti Vestnorræna ráðsins, þá fór ég að sjálfsögðu til Akureyrar og heimsótti Norðurslóðanetið og kynnti mér það starf. Það var í mínum huga hjarta málefna norðurslóða og ég held að vel fari á því að efla það og tryggja. En ég verð kannski að segja að ég veit ekki alveg með tilgang þessarar þingsályktunartillögu sem slíkrar nema það að við sem hér störfum séum dugleg að ræða þetta og viðurkenna og virkja það starf sem á sér stað á Norðurlandi. Það var líka áhugavert á hringborði norðurslóðanna sem það myndi heita á íslensku, á ráðstefnu sem haldin var í Hörpu um helgina, að þar kynnti menntamálaráðherra vísindasamstarf vísindaráðherra um norðurslóðamál þar sem við höfum verið í sérstöku samstarfi við Japani. Þar sjáum við hvað málefni norðurslóða og vísindi því tengd teygja sig langt. Ég hef líka nefnt það víða að þegar þingmenn hafa heimsótt mig frá Kóreu, Japan og Kína er það tvennt sem ég hef verið spurð út í. Það eru jafnréttismál og norðurslóðamál.

Það eru vissulega mikil tækifæri þarna og ég óska Akureyri alls hins besta í að festa sig enn frekar í sessi sem miðstöð málefna norðurslóða.