150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi.

182. mál
[17:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætlaði að koma hingað upp aðallega til að taka undir og styðja þessa þingsályktunartillögu sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir lagði fram og hefði í sjálfu sér getað gert það í stuttu andsvari. En til að gera ekki einstaka atburði í vor að mynstri hér í þingsal, af því að hún er samflokkskona mín, þá ákvað ég að koma upp í ræðu. En svo hefur ýmislegt merkilegt gerst síðan ég ákvað það. Hér hafa fallið orð og spurningum varpað fram sem er bara allt í lagi að fara aðeins yfir.

Getum við ekki öll verið sammála um að svona er þetta bara? Jú, eflaust. En síðan koma nýir utanríkisráðherrar og nýir þingmenn sem geta verið sammála um eitthvað allt annað. Það er því mjög mikilvægt að svona hlutir séu formgerðir. Þannig höfum við reyndar alltaf gert það. Við skulum ekki gleyma því að í lok 19. aldar var það einmitt ákveðið með lögum og formlegum hætti, af því að við vorum afskaplega fá í svo ofboðslega stóru landi, að hér skyldi vera landspítali. Hér skyldi vera háskóli, hér skyldi vera Alþingi, hér skyldi vera hæstiréttur, þjóðleikhús. Allt var þetta örugglega mjög skynsamlegt og nauðsynlegt á þeim tíma, en það hafði hins vegar þau áhrif að Reykjavík, sem var árið 1901 með 8% af íbúafjölda landsins, óx upp í það fram að árinu 2015 að verða 35% af landinu og með höfuðborgarsvæðinu öllu, þessum litlu pínuhreppum sem héngu utan á borginni, Mosfellshreppi, Garðahreppi, sem breyttust í bæi, og Kópavogi, hefur hlutfallið farið upp í 75%.

Tvær ástæður eru fyrir því að það er fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt að formgera þetta, að Akureyri verði miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi, með þessum hætti. Í fyrsta lagi, eins og ágætur flutningsmaður kom inn á, er til staðar starfsemi og innviðir sem gera það kleift að verkefnið er mjög vel fallið til að vera þar. Í öðru lagi skiptir líka máli að við förum að spyrna við fótum gagnvart þeirri ofboðslega óheppilegu og vondu íbúaþróun sem er að verða í landinu. Norðmenn skilgreina það t.d. sem meiri háttar byggðaröskun ef íbúafjöldi Óslóar verður meiri en 25% af öllu landinu og búa þeir í sæmilega stóru landi líka. En hér erum við komin upp í 75%. Ég ítreka að þetta var skynsamleg ráðstöfun á sínum tíma en það er betra fyrir okkur að við höfum mótvægi. Það mótvægi er einfaldlega helst Akureyri. Í þriðja lagi gæti ég svo hnýtt við að Akureyri er þannig í sveit sett að vera eini bærinn sem snertir heimskautslínuna. Í einhverja tugi ára eða hundruð jafnvel mun það verða þannig, þar til að sú lína færist norður fyrir eyjuna, enda er hún ekki stöðugt á sama stað eins og við þekkjum öll. Þetta held ég að sé ærin ástæða til að ákveða að svona verði þetta.

Síðan langar mig aðeins að ræða norðurslóðamál og svæðið norðan við heimskautslínuna sem allir virðast hafa brjálæðislegan áhuga á, ekki síst stærstu og öflugustu ríki veraldar. Ég hrekk alltaf við þegar talað er um tækifærin okkar. Ég skil alveg hvað hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir á við og ég er sammála henni. En ég held að við eigum að nálgast málið á auðmýkri hátt en að tala alltaf um tækifæri sem felast í breytingum sem eru að verða vegna ofbeitar mannsins á plánetunni. Ég held að við ættum einmitt að vera eins konar útverðir og verðir þessa svæðis, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, gagnvart sjónarmiðum frekari ofbeitar eins og mér heyrðist fulltrúi bandarísku þjóðarinnar vera að leggja áherslu á. Ég verð líka alltaf pínulítið hræddur þegar ég sé of mörg grá jakkaföt í sama herberginu. Það gerðist einmitt á Arctic Circle. Það er rándýrt þar inn þannig að það er auðvitað tómt mál að tala um eins og fyrrverandi forseti Íslands talaði um að þarna væri alls konar fólk og venjulegt fólk. Þarna er ekkert alls konar fólk og venjulegt fólk. Þar er einfaldlega fólk sem hefur efni á því að taka sér frí í vinnunni og borga 50.000 kall inn. Engu að síður er þetta mikilvæg samkoma og hann á heiður skilinn fyrir að halda þessu máli á lofti. En ég vara þó við að þetta svæði verði einhver skák í kapphlaupi ríkja.

Ég var á mjög merkilegum gjörningi norður á Akureyri fyrir tveimur dögum sem var fluttur af Nordting, listahópi frá Norður-Noregi, sem fjallaði um norðurskautið. Þau voru búin að greina myndefnið sem birtist í auglýsingum, á plakötum og í bæklingum samkomunnar. Þau greindu það í þrennt. Í fyrsta flokkinum voru landslagsmyndir. Allar myndirnar voru hvítar af því að bara var sýndur snjór, eins og það sé aldrei sumar norðan við heimskautsbaug. Á næstu myndum voru bara vélar, tæki, alls konar tæki sem geta verið gagnleg. Þá fórum við aðeins að hrökkva í kút og hugsuðum: Er ekkert fólk? Það býr nefnilega alveg fullt af fólki þarna. Jú, svo fundu þau nokkrar myndir af fólki en þær voru af fólki í samíska þjóðbúningnum og fólki í Inúíta-búningum sem það klæðist væntanlega einungis á þjóðhátíðardaginn. Engar myndir voru af venjulegu fólki, ekki myndir af börnum, ekki af einhverjum að fara í skóla. Ég held að við ættum kannski að muna eftir því að þarna býr fólk, þarna er mjög merkilegur kúltúr og við eigum, ef við ætlum að taka þátt, fyrst og fremst að standa vörð um hann og auðvitað jörðina okkar.