150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

40 stunda vinnuvika.

138. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir í þriðja sinn frumvarpi til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, lögbundnir frídagar. Flutningsmenn frumvarpsins ásamt mér eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Páll Jónsson, sem sagt allur þingflokkur Miðflokksins.

Frumvarpið er mjög einfalt í sniðum, það er tvær greinar.

1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „og 17. júní“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: 17. júní og 1. desember.“

Í 2. gr. segir:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og fram kom hefur frumvarpið verið lagt fram áður tvisvar, þ.e. á 148. og 149. löggjafarþingi. Kveikjan að frumvarpinu er kannski að sumu leyti þau tímamót að í fyrra voru 100 ár liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna. Okkur flutningsmönnum þykir sem þeim degi hafi ekki verið sýndur sá sómi sem hann á skilið undanfarin ár eða áratugi. Eins og menn vita er nú í lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, auk helgidaga þjóðkirkjunnar, sérstaklega kveðið á um fjóra heila frídaga sem eru sumardagurinn fyrsti, fyrsti mánudagur í ágúst, þ.e. frídagur verslunarmanna, 1. maí, baráttudagur verkalýðsins, og þjóðhátíðardagur Íslendinga 17. júní. Við flutningsmenn teljum að 1. desember hafi haft það mikil áhrif í sögu þjóðarinnar og með honum orðið þvílík þáttaskil að rétt sé að minnast dagsins með hátíðlegri hætti en nú er gert og leggjum þess vegna til að hann verði lögbundinn frídagur.

Það er í sjálfu sér ótrúlegt að akkúrat í miðri eymdinni 1918, árið þegar Katla gaus, árið þegar hafís lá við strendur nokkuð lengi, árið sem drepsótt geisaði í Reykjavík og víðar um land, þó að sem betur fer kæmist hún ekki hringinn í kringum landið út af örðugum samgöngum, tóku menn sig til og héldu upp á að sambandslagasamningurinn var kominn á. Þetta er árið sem heimsstyrjöldinni fyrri lýkur, þremur vikum áður en þessi dagur rennur upp, og það er satt að segja alveg ótrúlegt að hugsa sér það og er mikið afrek að það ágæta fólk sem þarna lagði hönd á plóg, jafn fáir og Íslendingar voru þá, skyldi enda þá baráttu sem staðið hafði í rúma hálfa öld fyrir því að Ísland yrði fullvalda ríki og Íslendingar yrðu þjóð meðal þjóða.

Það varð í sjálfu sér dálítil vakning, og ekki bara dálítil, á 100 ára afmælinu í fyrra. Það voru nokkur hundruð atburðir á dagskrá úti um allt land, sumir styrktir af sérstakri nefnd sem skipuð var á Alþingi 2016 og sá sem hér stendur var svo lánsamur að eiga sæti í henni. Miklu fleiri voru þó atburðir sem voru sprottnir af áhuga manna víða úti um land. Þátttakan í atburðunum var gríðarlega góð. Það er kannski rétt og gott að nota einmitt þá bylgju sem þarna myndaðist til að festa í sessi þennan dag sem lögbundinn frídag. Ekki má ég klára umfjöllun um árið í fyrra án þess að minnast á þátt Ríkisútvarpsins í afmælisárinu en það flutti, bæði í útvarpi og sjónvarpi, ótal þætti sem tengdust þessum tímamótum, tengdust árinu 1918 og atburðum sem þá urðu og þróuninni í þjóðfélaginu allt fram á þennan dag, auk þess sem sett var upp stórmerkileg sýning í Listasafni Íslands o.s.frv.

Hægt er að halda því fram með þokkalegri samvisku að í sjálfu sér hafi 1. desember verið meiri snúningspunktur eða bautasteinn heldur en 17. júní vegna þess að í sambandslagasamningnum frá 1918 er kveðið á um það að 25 árum síðar geti Ísland orðið sjálfstætt ríki eins og varð svo 17. júní 1944. Þessi dagur er svo merkilegur í þjóðarsögunni að við eigum, að mér finnst og okkur sem hér eru að baki, að minnast hans. Það eigi líka að gera þannig að framtíðarkynslóðum verði ljóst hvaða barátta það var sem skilaði okkur að endingu sjálfstæðinu á sínum tíma fyrir 75 árum. Það virðist vera þannig, alla vega þegar maður sér til unglinga og barna í sjónvarpi, að þeim er ekki alveg ljóst af hverju haldið er upp á þennan og hinn daginn. Það er okkur að kenna sem eldri erum og höfum ekki sagt þeim frá því af hverju það er. Það ber brýna nauðsyn til þess að við gerum unga fólkinu grein fyrir þeirri baráttu sem háð var hér á síðustu öld, einni og hálfri öld, fyrir því að Ísland yrði aftur sjálfstætt, líkt og það var í öndverðu þegar menn námu hér land.

Að þessu sögðu vonast ég til að nú í þriðja sinn sem þetta mál kemur fram fari það í meðferð nefndar, sem reyndar er ekki tilgreind hér, ég vænti þess að það verði annaðhvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða allsherjar- og menntamálanefnd. Það kemur í ljós og það skiptir ekki öllu máli. Aðalatriðið er að þegar frumvarpið fer til nefndar fái það gaumgæfilega meðhöndlun og komi aftur til meðferðar í þingsal og fái afgreiðslu. Í sjálfu sér finnst mér að okkur beri skylda til þess að gera þetta.

Í nýlegri óformlegri skoðanakönnun lýstu 67% aðspurðra sig fylgjandi því að 1. desember yrði lögbundinn frídagur þannig að hægt væri að halda upp á hann með veglegri hætti en hefur verið gert undanfarið, án þess að ég ætli að gera lítið úr því sem Háskóli Íslands hefur gert þennan dag í fjölda ára og nú upp á síðkastið hefur þessi dagur verði helgaður doktorum og doktorsnemum og það er vel. Engu að síður æski ég þess að málið verði tekið til meðferðar í nefnd og komi að þeirri meðferð lokinni aftur inn í þingsal og að við afgreiðum málið í sameiningu.

Af fjölda þingmanna í þingsal er ekki að sjá að brennandi áhugi sé fyrir málinu en mér hefur verið bent á það í ræðum áður að það sé ekki til merkis um að menn hafi ekki áhuga á málinu að þeir streymi ekki upp í pontu og taki þátt í umræða um það og/eða sitji hér í þingsal þegar stórmál á borð við þetta er rætt. En ég vona engu að síður að alþingismenn fylgist með því að þetta frumvarp er fram komið og greiði leið þess í gegnum þingið.