150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

meðferð einkamála.

159. mál
[17:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir kynninguna á þessu frumvarpi sem nú er lagt fram í þriðja sinn, að því er mér sýnist. Mig langar aðallega að spyrja hv. þingmann út í það hvers vegna horft sé sérstaklega til ákveðins hóps mála. Hvers vegna er verið að tala um að ákvörðun málskostnaðar samkvæmt 2. og 4. mgr. 130. gr. skuli vera sérstaklega rökstudd? Er ekki bara rétt að setja frekar í lög að ákvörðun um málskostnað skuli vera rökstudd — punktur? Ég veit að lögmenn hafa margir brugðið á það ráð að óska sérstaklega eftir rökstuðningi dómara þegar dómari bregður út af tímaskýrslu í málum og hafa þeir tekið upp á því, sérstaklega þegar mikið er hvikað frá tímaskýrslu, að óska sérstaklega eftir rökstuðningi. En ég hef ekki séð að það hafi borið mikinn árangur í niðurstöðum. Það er nú ekki bara í meiðyrðamálum eða slíkum málum sem málskostnaður er felldur niður heldur er t.d. málskostnaður nánast alltaf felldur niður í forsjármálum. Það heyrir til undantekninga að málskostnaður sé ákveðinn í slíkum málum. Og svo líka þegar um er að ræða t.d. gjafsóknarmál þar sem dómari tekur ákvörðun um að skera verulega niður málskostnað þar sem einstaklingur er með mjög skerta greiðslugetu og fær þess vegna gjafsóknarleyfi frá ríkinu, hvort tveggja til sóknar og varnar, og stæði uppi með mikinn málskostnað ætli lögmaðurinn ekki að vinna í sjálfboðavinnu vegna starfans vegna þess að dómarinn hefur tekið sjálfstæða ákvörðun um hvað hefði mátt setja mikla vinnu í verkið.