150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

25. mál
[17:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu Flokks fólksins um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði. Ekki fer á milli mála að ekki er bara þörf heldur nauðsyn að koma málum í þennan farveg. Það er einfalt að fara bara í smáferðalag og rifja upp það sem skeði við bankahrunið. Hvað varð um stóran hlut þeirra fjárfestinga sem lífeyrissjóðirnir höfðu lagt út í? Hvað erum við að tala um miklar tapaðar skatttekjur, uppreiknað til dagsins í dag? Sennilega hafa einhvers staðar á bilinu 500–1.000 milljarðar hreinlega tapast á markaði. Við eigum líka að spyrja okkur að því hvers vegna í ósköpunum sé leyft að fara með skatttekjur þúsunda lífeyrissjóðsþega á markað til að „gambla“ með þær.

Eins og við vitum erum við með allt of marga lífeyrissjóði. Allt of stóra yfirbyggingu sem kostar okkur tugmilljarða á ári. Þar eru ofurlaun vegna þess að þeir bera svo rosalega mikla ábyrgð. En ábyrgðin hverfur fljótt og er ekki til staðar þegar hlutirnir tapast. Við verðum að skattleggja lífeyrissparnað við inngreiðslu og nýta þá peninga strax í velferðarkerfið til að koma öryrkjum út úr ekki bara fátækt heldur sárafátækt og koma til móts við 10.000 eldri borgara sem, eins og komið hefur fram, lifa við fátækt. Við vitum að á sínum tíma voru lágmarkslaun og örorkulífeyrir skattlaus. Það var við upphaf staðgreiðslu árið 1988. Í dag er rosalegur munur á. Í dag eru öryrkjar með 70.000 kr. minna á mánuði en láglaunafólk.

Það er undarlegt í þessu samhengi hverjum þetta bitnar mest á. Hverjir eru það sem verða fyrir mestum skerðingum og hefðu mestan hag af því ef við færum með lágmarksútgreiðslu upp í 300.000 kr. svo allir fengju 300.000 kr., skatta og skerðingarlaust? Það eru konur. Það er einfaldlega vegna þess að þær hafa borgað minnst í lífeyrissjóð. Það segir okkur að það er eitthvað stórlega mikið að kerfi sem getur sett dæmið upp þannig að viðkomandi hafi borgað í lífeyrissjóð sinn af erfiðisvinnu, láglaunavinnu, til fjölda ára en hver einasta króna sem hann á að hafa unnið sér inn í þessu kerfi er tekin til baka með skerðingum. Það þarf að fara yfir 50.000–60.000 kr. til þess að ávinna sér einhvern hluta af lífeyrissjóðsgreiðslum sínum. Þetta er eiginlega bara eignaupptaka. Það segir sig sjálft um þá sem lifa í dag af þessu, sem er meiri hluti öryrkja, 70%, á 215.000 kr. útborguðum, að það munar rosalega fyrir þessa einstaklinga ef þeir færu í dag í 300.000 kr. Við erum að tala um 85.000 kr. á mánuði sem er eiginlega nálægt þeirri tölu sem hefur verið bent á að verði launamunurinn á öryrkjum og láglaunafólki eftir næstu launahækkun, 86.000 kr. Ef við gætum gert þetta án þess að raska neinu öðru í kerfinu væri það stórkostlegt.

Það er byrjað að sýna sig í lífeyrissjóðakerfinu, og er það sem ég óttast mest, að það er að verða tap. Við sjáum það hjá fyrirtækjum sem fjárfesta í byggingariðnaði. Við höfum séð eitt fyrirtæki sem lífeyrissjóðir voru að fjárfesta í fyrir hundruð milljóna og það lítur út fyrir að það sé allt tapað. Þegar hægt er að færa niður milljarða á einu bretti niður í núll, þegar maður heyrir þær tölur, þegar maður heyrir að bara hótelbyggingin sem er hér við hliðina á Alþingi hafi þegar fengið 4 milljarða úr lífeyrissjóðskerfi í sína uppbyggingu, fer maður að spyrja sig hversu örugg fjárfesting þetta sé. Hún er því miður ekki mjög örugg. En svo er annað í þessu líka sem við gleymum alltaf. Það eru þessir 5.000 milljarðar, og er sennilega orðið meira en það, sem eru í lífeyrissjóðakerfinu í dag. Þarna inni eru nærri 2.000 milljarðar af skatttekjum sem er verið að gambla með á markaði. Það er eiginlega með ólíkindum miðað við það að lífeyrissjóðirnir eiga í nærri hverju einasta fyrirtæki á landinu og það stóran hluta. Maður spyr sig líka að því í hversu mörgum tilfellum allir þessir lífeyrissjóðir, nálægt 27 eða 28, eru að selja hver öðrum eignirnar. Það er ekki hægt að fjárfesta endalaust í fyrirtækjum á Íslandi. Féð er að vísu farið að streyma út. En það segir sig sjálft að í svona litlu hagkerfi væri mun betra fyrir kerfið að fá þessar skatttekjur, fá þessa 70 milljarða, núna. Ég myndi segja að það væri líka annað í dæminu. Það þyrfti að fara að ná í eitthvað af þessum nær 2.000 milljörðum af skatttekjum sem eru nú þegar í ávöxtunarkerfinu en væru mun betur geymdir í heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu á Íslandi í dag.

Það er staðreynd og fer ekki á milli mála að þegar einstaklingar sem eiga að reyna að lifa á 320.000 kr. á mánuði kvarta undan því að þeir eigi ekki fyrir mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum, hvernig í ósköpunum ætlum við þá að leyfa okkur að segja við fólk sem lifir á rétt rúmum 200.000 kr. og margir með minna að það geti og verði að halda áfram að reyna að tóra á þeirri hungurlús? Það segir sig sjálft að það er ekki hægt. Það er okkur til háborinnar skammar að við skulum leyfa okkur að koma svona fram við fólk. Sérstaklega í því tilfelli þegar við erum að tala um veikt fólk sem getur ekki varið sig og um eldri borgara sem eru búnir að vinna alla sína tíð, borga í lífeyrissjóðina og eiga þessa peninga, en þeir eru teknir af þeim, ekki til að nýta þá til að borga þeim sjálfum þannig að þeir geti haft það gott heldur virðist þetta bara hverfa í hítina. Einhvern veginn sitja þeir eftir sem eiga þessa peninga með gallbragð í munninum og fá þá ekki. Fólk sem hefur unnið láglaunavinnu alla ævi er kannski að spá í að fara á eftirlaun og spyr: Hvað fæ ég út úr því að fara á eftirlaun? Það verður skelfingu lostið því það áttar sig á því að lífeyrissjóðsgreiðslur skila sér ekki. Það er verið að skattleggja þær og skerða. Það endar með því að skattar og skerðingar leiða stóran hóp til fátæktar. Þessu viljum við breyta og þess vegna leggjum við þessa tillögu fram, til þess að geta komið hlutunum þannig fyrir að enginn þurfi að lifa í sárafátækt.