150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég tel að það sé ákveðin hátíðarstund á ráðherraferli utanríkisráðherra þegar hann kemur og kynnir mikilvægar skýrslur um mikilvæg mál á sínu starfssviði fyrir Alþingi. Hann er búinn að kynna og gera grein fyrir tveimur skýrslum, annars vegar skýrslu starfshóps sem var settur á laggirnar samkvæmt sérstakri beiðni sem var samþykkt á Alþingi í þrígang og svo kynnir hann reglubundna skýrslu um framkvæmd EES-samstarfsins sem er unnin í hans háa ráðuneyti. Við erum í umræðu um það með hvaða hætti við stöndum að því að gæta sem allra best íslenskra hagsmuna í þessu samstarfi, svo víðfeðmt sem það er, svo krefjandi sem það er að sumu leyti, eins og við þekkjum, líka með tilliti til mannafla og þekkingar og alls þess sem uppi er.

Ég kemst ekki hjá því að játa að ég verð eilítið undrandi að á slíkri hátíðarstundu á ráðherraferli hæstv. ráðherra skuli hann kjósa að fara í einhverjar flokkspólitískar ýfingar gagnvart einhverjum mönnum, sem eru reyndar fjarstaddir, a.m.k. annar þeirra er staddur erlendis vegna skyldustarfa á vegum Alþingis. Ég ætla bara að leiða þetta hjá mér og árna ráðherranum áframhaldandi velgengni í embætti sínu. Ég er ánægður að heyra að við séum samtaka í því að vilja gæta íslenskra hagsmuna. Ég saknaði þess að ráðherrann viðurkenndi að orkupakkamálið var í raun og sanni stórmál. Hann gerði það ekki meðan á því stóð, (Forseti hringir.) gerði lítið úr því. En það skilur eftir mjög alvarlegar spurningar í hugum landsmanna.