150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega enn þá ringlaðri en áður. Hv. þingmaður sagði að hann vildi að við tækjum þátt í þessu samstarfi með opin augun, með vitsmuni og þekkingu að leiðarljósi og að þau málefni fengju góða umræðu og að við ættum ekki að stinga hausnum í sandinn o.s.frv. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég fæ ekki betur séð en að það sé nákvæmlega það sem hafi verið gert í þriðja orkupakkanum — ég nefni hann sérstaklega að það var þingflokkur hv. þingmanns sem varði góðum tíma í sumar að ræða það mál, það fékk aldeilis góða umræðu.

Ég velti fyrir mér: Hvernig getum við verið með opnari augun? Hvernig getum við byggt meira á vitsmunum? Hvernig getum við byggt meira á þekkingu og hvernig getum við fengið fram betri umræðu, að sögn hv. þingmanns, en þá sem við höfum fengið um þriðja orkupakkann? Að mínu viti er það það mál, sem ég hugsa að Alþingi hafi farið í með hvað opnust augun og byggt hvað mest á vitsmunum, hvað mest á þekkingu og fengið hvað mesta umræðu um. Ég velti fyrir mér hvað sé hægt að gera betur.