150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að við getum alveg stokkað landbúnaðinn upp sjálf en til þess þurfum við öðruvísi ríkisstjórn.

Ég hef kannski ekki verið nógu skýr áðan en ég var einmitt að lýsa því að þegar gengið fellur eru teknir peningar úr veski almennings og útflutningsgreinarnar hagnast. Þær taka ekki þátt, þær taka ekki þátt í þeirri ógæfu sem þá dynur yfir venjulegt fólk í landinu. (Gripið fram í: Atvinnuleysi.) Það er alveg rétt, atvinnuleysi getur verið erfið áskorun og það er einn af þessum plúsum og mínusum sem við þurfum að fást við. En hér hefur hins vegar frekar vantað vinnuafl og ég hef enga trú á því að við munum ekki geta haft meiri ávinning heldur en hitt.

Það er líka rétt að hér hefur vaxtastig verið sögulega lágt að undanförnu, það lægsta sem hefur þekkst mjög lengi. En það er hins vegar ekki rétt að það sé ekki samt umtalsverður munur á vaxtastigi milli Evrópusambandslandanna og Norðurlandanna annars vegar og Íslands hins vegar. Ég held að við þurfum einfaldlega að virða yfirlýsingu flestra formanna stjórnmálaflokka, þar með talið formanns Sjálfstæðisflokksins, um að leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB. Síðan gerum við bara eins og skynsamt fólk, við setjumst niður, vegum kostina á móti göllunum og greiðum atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held hins vegar að við eigum líka, þegar við tölum um alþjóðasamstarf og samskipti við útlönd, að hefja okkur stundum yfir það að metast um hvort við fáum fleiri krónur eða látum frá okkur fleiri krónur vegna þess að á endanum snýst þetta um alls konar hluti, um manngildi og þar eigum við samleið með Evrópuþjóðunum.