150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:42]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er áhugaverð spurning. Hér ræðum við skýrslu um EES-samstarfið og ég held að það sé alveg hægt að ræða um það samstarf án þess að hver og einn þurfi að svara til um skoðanir sínar á því hvort ganga eigi í Evrópusambandið eða ekki. Ég tel að þetta hafi verið mjög farsælt samstarf. Píratar eru ekki með stefnu varðandi Evrópusambandsaðild en ég get lýst því yfir að ég er dálítill tækifærissinni sjálf þegar kemur að Evrópusambandinu. Ég er ekki mjög hrifin af því að mörgu leyti, það á bæði kosti og galla. En á meðan það er þarna held ég að Íslandi sé illa stætt á því að standa fyrir utan, en EES-samningurinn gerir það vissulega mun auðveldara en ella. Ég held að EES-samstarfið sé farsælt og að við getum vel haldið því áfram. En til lengri framtíðar myndi ég vilja sjá Evrópusambandsaðild. Auðvitað getum við ráðið því hversu djúpt við viljum fara í samstarfið í gegnum EES-samninginn sem við eigum kannski erfiðara með innan Evrópusambandsins. En þá tel ég að við eigum alltaf nýja stjórnarskrá okkur til varnar. Ef okkur lánast að samþykkja nýja stjórnarskrá held ég að okkur verði borgið og að framtíðin verði okkar, alveg sama hvort það yrði á Evrópska efnahagssvæðinu eða innan Evrópusambandsins sjálfs.