150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:29]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við þurfum alltaf að hefja þessi orðaskipti á því að ræða aðeins um banana og agúrkur. Ég hef fyrir satt að Boris Johnson hafi skáldað upp sögur um banana og raunar skáldað upp fleiri sögur um fáránlegar reglugerðir og lög Evrópusambandsins. En nóg um það.

Auðvitað þarf Evrópusambandið að hafa styrk á alþjóðavísu. Þau ríki sem eru aðilar að Evrópusambandinu þurfa að hafa þá tilfinningu að þau fái afl af því að vera í þessu sambandi og það gefi þeim afl á alþjóðavísu. Evrópusambandið þarf að hafa rödd gagnvart stórveldunum, þótt ekki væri nema í loftslagsmálum þar sem Evrópusambandið hefur að mínu mati framsækna og góða stefnu. Það þarf að geta talað skýrri röddu. Ég tel hins vegar að það eigi ekki að ganga of langt í því að gera eitt ríki úr Evrópusambandinu og ég er ekki viss um að sú hugmynd hafi endilega hljómgrunn utan miðborgar Brussel.