150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri.

186. mál
[16:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum, á þskj. 188, 186. mál. Tilefni frumvarpsins má rekja til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, vegna skilyrða um búsetu og heimilisfesti framkvæmdastjóra og stjórnenda í lögunum. Í 10. gr. núgildandi laga, nr. 34/1991, kemur fram að í íslenskum atvinnufyrirtækjum skuli framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna vera búsettir hér á landi. Búsetuskilyrðið gildir þó ekki um ríkisborgara þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðila að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir innan fyrrgreindra svæða. Ríkisborgarar annarra ríkja þurfa samkvæmt lögunum að vera búsettir á Íslandi, en ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá því. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert formlega athugasemd við fyrrgreindar búsetukröfur, þ.e. þá kröfu að viðkomandi ríkisborgarar þurfi að vera búsettir á fyrrgreindum svæðum. Að mati ESA eiga búsetuskilyrðin eingöngu rétt á sér ef um er að ræða ríkisborgara annarra ríkja. Frumvarpið mælir því fyrir um að afnema búsetuskilyrði EES-ríkisborgara sem og ríkisborgara ríkja sem eiga aðild að stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyinga. Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um að búsetuskilyrði ríkisborgara annarra ríkja verði miðuð við fyrrgreind svæði.

ESA vakti fyrst athygli á málinu árið 2014 og beindust athugasemdir ESA að fimm lagabálkum. Þremur af þeim lagabálkum hefur þegar verið breytt í samræmi við athugasemdirnar, þ.e. lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, samanber breytingalög nr. 25/2017. Frumvarp það sem hér er lagt fram hefur í grunninn sömu áhrif og fyrrgreint breytingafrumvarp frá árinu 2017.

Ástæður athugasemda ESA má rekja til þess að ein af grunnreglum EES-samningsins er að ekki er hægt að setja höft á rétt ríkisborgara á Evrópska efnahagssvæðinu til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði einhvers annars ríkis á svæðinu. Staðfesturétturinn felur m.a. í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki.

Lagaákvæði sem gera kröfu um búsetu í EES-ríki að skilyrði fyrir réttindum geta falið í sér mismunun sem telst ólögmæt á grundvelli EES-samningsins, enda á rétturinn til frjálsrar atvinnustarfsemi að tengjast ríkisfangi en ekki búsetu.

Það er rétt að taka það fram að frumvarpið mun ekki hafa áhrif á möguleika stjórnvalda til að setja þrengri lög um fjárfestingu erlendra aðila, enda segir í 1. gr. laganna að lögin gildi um „hvers kyns fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi nema annað leiði af ákvæðum annarra laga eða reglum settum samkvæmt þeim“. Lögin gilda því ekki um fjárfestingu ef önnur lög mæla fyrir um eitthvað annað, t.d. jarðalög.

Verði frumvarpið að lögum mun það enn fremur engin áhrif hafa á þær almennu takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila sem mælt er fyrir um í 4. gr. laga nr. 34/1991. Þær takmarkanir gilda óháð félagaformi og athugasemdir ESA beinast ekki að 4. gr. laganna.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið muni hafa í för með sér fjárhagsáhrif á ríkissjóð verði það að lögum. Fyrirtækjaskrá þarf þó að sannreyna þær upplýsingar sem um ræðir en ekki er talið að það hafi teljandi áhrif á stofnunina.

Verði frumvarpið að lögum munu breytt búsetuskilyrði gera fyrirtækjum kleift að fá ríkisborgara fyrrgreindra svæða, þ.e. þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um EES, aðila að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga, til að gegna stjórnarsetu eða vera framkvæmdastjórar, óháð búsetu þeirra enn fremur ríkisborgara annarra ríkja sem eru búsettir á þeim svæðum sem tilgreind eru.

Lagabreyting þessi er í samræmi við stefnu stjórnvalda um einfaldara regluverk enda eiga íslensk stjórnvöld ekki að setja frekari höft á atvinnulífið en það sem heimilt er samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.