150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og tek fram að ég styð þetta mál. Ég hef mikið fjallað um smálánin, bæði í þessum þingsal og víða annars staðar, átt sérstaka umræðu við ráðherra og eitt og annað hefur maður látið sér um munn fara er varðar slík lán. Þau eru böl sem við verðum að mínu mati að reyna að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum og þetta mál er liður í því. Ég hef viðrað það hér að ég hef haft áhyggjur af því að breyta þurfi fleiru eins og innheimtulögunum og ánægjulegt að heyra hjá ráðherra að sú vinna er í gangi í fjármálaráðuneytinu. Kannski hefði þetta þurft að vera bandormur og ráðherrann nefndi samtal sitt við dómsmálaráðherra.

Allt frá því að starfsemi slíkra fyrirtækja hófst hér á landi í kringum 2010 hafa þær lánveitingar orðið okkur og ýmsum fleirum tilefni til umræðna á þingi og víða annars staðar. Skilmálarnir sem fylgja lánum hjá fyrirtækjunum eru af mörgum taldir óforskömmuð dæmi um okur og ýmislegt í starfsháttum þeirra þykir bera vott um rangsleitni og jafnvel pretti eins þegar var farið í kringum lögin með því að dylja þessar gríðarlegu vaxtaálögur með því að láta einhver málamyndakaup fara fram á rafbók.

Það er líka mál margra að smálánum sé einkum beint að samfélagshópum sem búa við slakan efnahag og ungu fólki í neyslu, fólki sem almennt á erfitt uppdráttar. Það staðfesta upplýsingar frá embætti umboðsmanns skuldara svo ekki verður um villst. Það er unga fólkið, tekjulága fólkið og fólk í fíknivanda sem tekur smálán og ratar í greiðsluvanda þess vegna og þarf á endanum að leita til embættis umboðsmanns skuldara til að vinna úr sínum málum. Það er auðvitað ekki bara þetta fólk sem fer í smálánin, það eru margir aðrir líka, en þetta er stærsti hópurinn.

Starfsemi sem felst í því að lána fé til skamms tíma með gríðarlegum vöxtum er þannig að á ársgrundvelli geta nafnvextir numið hundruðum prósenta, eins og við höfum heyrt í fréttum og komið hefur verið inn á hér. Þetta er ólögleg vaxtataka samkvæmt þeim lögum sem við búum við. Eins og oft áður er farið í kringum reglurnar með því að kalla þetta lántökukostnað og ýmsum öðrum fyrirslætti beitt til að hækka endurgjaldið fyrir lánveitinguna umfram það sem heimilt er.

Smálánafyrirtæki eru hluti af þeim víðtæku breytingum sem við sjáum almennt á fjármálamarkaði, m.a. með tilkomu snjalltækja og stafrænna lausna. Ný fjármálatækni, FinTech, hefur þróast hratt og í sumum tilfellum, líkt og við höfum orðið áþreifanlega vör við, hraðar en löggjöfin sem um hana gildir. Það er líklega það sem við stöndum frammi fyrir hér á landi, að í gegnum tíðina hafi löggjafinn ekki náð nægilega vel utan um breytingar sem hafa orðið á því sviði.

Eitt af því sem ég hef komið oft inn á er að þó að stærsti pósturinn hjá umboðsmanni skuldara sé, eða hafi alla vega verið á tímabili, smálánin og fólk í vanda þeirra vegna, sem var komið inn á áðan af hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, þá fjármagna smálánafyrirtækin ekki starfsemi umboðsmanns skuldara. Önnur fjármálafyrirtæki og lánastofnanir, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir, vátryggingafélög, bera kostnaðinn við þetta embætti og mér finnst að við eigum að hafa það þannig að smálánafyrirtækin geri það líka. Af hverju ætti það ekki að vera ef fyrirtæki eru í lánastarfsemi á annað borð, sérstaklega í ljósi sögunnnar og þróunarinnar, að þau þurfi að lúta öllum þeim lögmálum sem við viljum hafa um starfsemi sem snýr að fjármálum ef þau ætla að vera í partíinu? Ég vil sjálf gera allt sem við getum til að loka á slík fyrirtæki en ef það er einhver ómöguleiki í því fólginn tel ég að við verðum að setja þeim afar þröngan og stífan ramma.

Neytendasamtökin hafa verið mjög dugleg að halda úti gagnrýni á fyrirtækin vegna viðskiptahátta þeirra og líka á stjórnvöld sem hafa brugðist seint við starfseminni. Árið 2016 lagði Neytendastofa sektir á þrjú smálánafyrirtæki vegna óleyfilegs lántökukostnaðar og ennfremur lagði hún árið 2017 stjórnvaldssekt á smálánafyrirtækið E-content auk dagsekta af því að það fylgdi ekki fyrirmælum um að breyta starfsháttum. Þetta var staðfest af áfrýjunarnefnd neytendamála þannig að við erum með viðurkennt vandamál í fanginu. Lántakendur sem hafa greitt allt of háa vexti og himinhá vaxtagjöld hafa afar lítil færi á að fá endurgreiðslu á þessum vöxtum eins og staðan er í dag og hér gerum við tilraun til að reyna að laga það að einhverju leyti. Það hefur kostað málaferli og annað slíkt þegar fólk hefur reynt að sækja rétt sinn og mér hefur fundist eitt af því sem við þyrftum að gera vera að sameina öll ráðuneytin sem koma að því og þess vegna hefði kannski verið best að koma með bandorm. En gott og vel, við erum með þetta svona hérna og fram undan eru væntanlega fleiri mál úr öðrum ráðuneytum.

Það er ekki bara eitthvað eitt sem þarf að breyta í löggjöfinni heldur margt og þess vegna deilist það á marga, sem maður hafði ekki áður leitt hugann að og fundist að það gæti komið fram eitt heildstætt mál. Í skýrslunni sem var skilað um smálánafyrirtæki var m.a. vísað til Finnlands þar sem verið er að vinna að frumvarpi um neytendalán og talað um að neytendum sé ekki skylt að greiða vexti eða annan kostnað af lánum umfram árlega hlutfallstölu kostnaðar eða lögbundið hámark. Það er eitt af því sem við höfum rætt hvað mest og ég held að við séum öll sammála um. En fram til þessa hefur ekki dugað okkur að setja þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar því að fyrirtækin finna sér alltaf leið til að fara í kringum það.

Ég held að líka sé mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir réttaróvissu eins og við höfum heyrt af varðandi þennan ólöglega hluta og ég tek undir að mikilvægt er að við vitum hverjir standa að baki fyrirtækjunum, að gagnsæi ríki í eignarhaldinu. Við höfum viljað það almennt í fjármálageiranum og höfum lagt á það ríka áherslu eftir efnahagshrunið að reyna að búa til gagnsæi í þessu og ég held að þau fyrirtæki eigi ekki að vera undanskilin því. Það hefur komið fram, og er m.a. ástæðan fyrir því að slík starfsemi þrífst, að smálánafyrirtækin fengu í lið með sér innheimtufyrirtæki sem er tilbúið til að innheimta lánin eins og þau eru fram borin. Það er í eigu eins lögmanns. Þar er stór brotalöm í kerfinu af því að Fjármálaeftirlitið hefur ekki eftirlit með lögmönnum heldur hafa þeir eftirlit með sjálfum sér, þ.e. Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með lögmönnum. Mér finnst ekki raunhæft að þegar fyrirtæki gerast brotleg sé Lögmannafélagið í stakk búið til að takast á við það, ég geri ekki ráð fyrir því. Það getur í sjálfu sér ekkert gert. Það getur ávítt viðkomandi lögmann sem er með innheimtuna en það getur ekki ákært og getur í rauninni beitt afskaplega takmörkuðum úrræðum. Þetta finnst mér við þurfa að takast á við. Það hefur komið fram hjá Neytendasamtökunum að þau sóttu mál fyrir hönd nokkurra lánþega gagnvart því tiltekna innheimtufyrirtæki sem ég vísaði til, en af því að þau voru ekki aðilar máls var þeim vísað frá. Þar kemur til sú lagatúlkun og -tækni að það er ótækt að hagsmunasamtök sem slík geti komið fram fyrir hönd einhvers og borið fram kvörtun eða fengið mál tekin til umfjöllunar.

Eitt af því sem hefur líka verið nefnt og er mikilvægt að fólk geti á öllum tímum fengið upplýsingar um er hvernig lánið er samsett. Þeir sem eru í vanda eru oft ekki meðvitaðir um annað en bara krónurnar sem þeir fengu að láni, ekki hvernig vaxtakostnaður eða lántökukostnaður eða annar kostnaður leggst ofan á og þurfa að geta gengið að því að fá það útlistað ef þeir svo kjósa. Fólk er í mismunandi ástandi þegar það tekur lán, það hefur komið fram. Það er ekkert þak á löginnheimtuninni og þessi kostnaður er gríðarlegur eins og við höfum heyrt, vanskilakostnaður í veldisvexti og enginn virðist ráða neitt við.

Það er líka dapurlegt að þeir sem veita smálán halda fólki í spennitreyju þegar það er í þessum aðstæðum með því að hóta því að setja það á vanskilaskrá. Enginn vill fara þangað með þeim afleiðingum sem því fylgir. Fólk sem kemur í banka og ætlar að fá lán, hvort sem það er fyrir húsnæði eða öðru, þarf ekki að gefa upp ef það er í smálánaskuld. Það er líka afar bagalegt að upplýsingaskylda sé ekki fyrir hendi. Fólk getur verið með margar milljónir í smálánum og allt í klessu en þegar það kemur inn í bankann þarf það ekki að gefa þetta upp og tilkynningarskyldan og utanumhaldið er ekki til staðar. Mér finnst það vera einn af stóru þáttunum. Vítahringurinn heldur áfram í staðinn fyrir að fólk fái aðstoð við að greiða upp lán og geta byrjað á núllpunkti.

Sá aðili sem hefur alheimsupplýsingar um okkur Íslendinga er Creditinfo. Við tölum gjarnan um að Google og Facebook hafi upplýsingar um okkur sem og aðra í heiminum en Creditinfo hefur gríðarlegar upplýsingar um okkur landsmenn og m.a. þessar upplýsingar. Mér finnst ástæða til að við skoðum hvort við þurfum að setja reglur þar að lútandi af því að þetta hangir allt svolítið saman. Það eru helst þeir sem geta skráð á vanskilaskrá. Mér finnst þetta alla vega umhugsunarvert og svo er það hitt með bankastarfsemina.

Þegar maður sækir um eitthvað hakar maður í box, sérstaklega á netinu, undir alls konar kringumstæðum, um miðja nótt og alla vega. Fólk hakar við og kemst þá að því að það er komið með langan skuldahala. Bankinn getur ekki tekist á við að búið er að heimila skuldfærslu af korti og viðkomandi situr uppi með það þangað til að skuldin er greidd, af því að bankinn telur sig ekkert geta aðhafst. Þetta á ekki að vera svona einfalt. Ég tek undir að það er ómögulegt. Við þekkjum alveg sjálf þegar við förum á netið og segjum bara „I agree“ og svo heldur maður áfram og tekur þátt í alls konar leikjum og einhverju. Við vitum að verið er að safna upplýsingum um okkur en við skoðum ekki skilmálana. Ég held að það séu allflestir staddir þar, t.d. er varðar samfélagsmiðla. Þetta á ekki að vera svona einfalt þegar verið er að taka lán. Þegar maður fer í banka og tekur lán þarf sá sem fer yfir það með þér að fara ofan í smáatriðin.

Við þurfum að skoða ábyrgð allra aðila sem koma að slíkum málum, ekki bara einhvers eins. Ég er sammála því sem Neytendasamtökin hafa lagt til, að komið verði upp keðjuábyrgð í innheimtunni. Það kemur væntanlega inn til okkar síðar og vonandi að fjármálaráðherra taki það upp. Það er mjög mikilvægt að ábyrgðin verði víðtækari, að allir, þ.e. innheimtuaðilar, greiðslumiðlunarþjónusta, fjármálastofnanir vísi ekki hver á annan heldur sé þetta samábyrgð allra. Þetta er brjálæðisleg markaðssetning sem smálánafyrirtækin hafa stundað. Það þekkja allir þeir sem hafa prófað að skrá sig þar, án þess að hafa nokkurn tíma tekið lán, að boðin berast ef eitthvað er um að vera í umhverfinu. Þá færðu sent að þú getir tekið smálán ef þig langar að gera þetta eða hitt, komast á hátíðina, hvort sem það er til Eyja um verslunarmannahelgi eða Secret Solstice eða hvað það nú er, þá koma smálánaskilaboðin alveg endalaust. Það er algerlega ótækt. Jólin fram undan og þá fer þetta líka að dynja yfir. Reddaðu þér bara — það eru svolítið skilaboðin.

Ég get haldið áfram mjög lengi. Mér finnst við líka þurfa að takast á við rannsóknir. Finnar gerðu ágætisrannsókn, en þar er svipuð markaðssetning og á Íslandi. Það er til góð umfjöllun um þá rannsókn og mér finnst það eitthvað sem við þurfum að leggja í, að skoða smálánamarkaðinn á Íslandi, bæði umfangið og enn þá frekar hverjir þetta eru, þannig að við eigum yfirlit yfir það. Við höfum einhverjar upplýsingar núna en við þurfum að gera þetta markvisst svo að við sjáum þróunina. Ég tala nú ekki um þegar við erum að reyna að taka utan um málaflokkinn með einhverjum hætti, þá þurfum við að vita hvaða afleiðingar það hefur, hvort það breyti einhverju eða hvort við þurfum að gera meira en hér hefur verið gert. Í Finnlandsrannsókninnni kom það þannig út að viðskiptavinirnir voru undir þrítugu, í öllum launaþrepum samfélagsins en yngsta fólkið var líklegra til að taka lán aftur og aftur. Eins voru það ungir, einstæðir foreldrar, láglaunafólk og atvinnulausir eins og hefur komið fram í máli umboðsmanns þegar hann var að greina skuldirnar. Við þurfum að mínu mati að taka betur utan um þetta.