150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get tekið undir svo margt sem hv. þingmaður sagði og raunar finnst mér eins og hv. þingmaður hafi frekar verið að tala fyrir mínu frumvarpi sem er búið að mæla fyrir og liggur nú hjá efnahags- og viðskiptanefnd og bíður þar vinnslu en frumvarpi hæstv. ráðherra. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem jafnframt er þingflokksformaður Vinstri grænna, hvort hún muni hvetja fulltrúa Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd til þess að styðja þá beiðni mína að frumvörpin verði skoðuð saman, þau standi jafnfætis frammi fyrir nefndinni og fái sömu meðferð. Ég er auðvitað að vonast til þess að a.m.k. eitthvað úr mínu frumvarpi verði tekið inn en spyr hvort hv. þingmaður treysti sér til að lýsa því yfir hér að hún muni styðja það að þarna verði þingmannafrumvarp og frumvarp frá ráðherra og ríkisstjórn afgreidd — ég ætlaði að segja á jafnréttisgrundvelli en það er kannski ekki alveg nógu gott orð. En ég vona að hv. þingmaður skilji hvað ég á við.