150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

náttúruvernd.

65. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir það sem kannski er hugleiðing frekar en spurning. Ég er sammála því sem hv. þingmaður er að fara. Við eigum að ganga vel um landið okkar, kenna hvert öðru að gera það, kenna börnunum okkar að gera það. En þrátt fyrir öll góð fyrirheit þurfum við að hafa reglur í samfélaginu. Það fylgir þó ekki öllum reglum sem við setjum í þinginu að bætt verði í hjá lögreglunni, ef þetta næst fram fylgir það ekki endilega. Lögreglan er störfum hlaðin og það er örugglega ekki það fyrsta sem félögum mínum austur í Rangárvalla- og Árnessýslu dettur í hug þegar þeir fara í vinnuna að gá hvort einhver fleygi rusli. Þeir hafa mikið að gera og þetta er kannski ekki fyrsta verkefnið. En þetta er eitt af verkefnum lögreglunnar þegar hún er á ferðinni og verði hún vör við slíkt er auðvitað gripið til aðgerða í samræmi við hlutverk hennar og brugðist við með því að sekta viðkomandi.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að landvarsla og eftirlit á hálendinu er verkefni sem þarf alltaf að auka. Ég var í heila viku á hálendinu um daginn með hátt í 100 manna hóp og það var eftirtektarvert hvernig það fólk, sveitafólkið, gekk um afréttina sína. Það ber mikla virðingu fyrir landinu og það er einmitt það sem við þurfum öllsömul að læra. En það er svartur sauður í öllu fé og við erum að reyna að girða fyrir að þeir gangi frá borði án þess að greiða einhvern hlut til samfélagsins.