150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.

30. mál
[13:53]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir ýmislegt. Ég ætla ekki að koma með beina spurningu heldur meira svona viðbrögð við ræðu hans og hann sér bara til hvort hann svarar mér og ég honum aftur og svo koll af kolli eða ekki. En ég held að það skipti alveg höfuðmáli að við endurhugsum skólakerfið. Það liggur fyrir að við búum ekki í heimi þar sem 24 ára gamalt fólk getur labbað út úr skóla í spánnýjum jakkafötum og veifað skírteini og verið með trygga vinnu alla ævi. Veldisvöxtur þekkingar og tækni er með þvílíkum hraða að við munum líklega þurfa að vera að læra alla ævi og þá held ég að það skipti höfuðmáli í upphafi að þrengja sig ekki of mikið. Við þurfum að hafa ákveðna grunnþekkingu. Við þurfum að kunna tungumálið, stærðfræði og við þurfum að kunna ýmislegt þannig að ég geld varhuga við því.

En ég held hins vegar að við eigum að reyna að efla miklu meira áherslu á skapandi hugsun. Ég þekki það bara sjálfur þegar ég var í skóla — og ég veit að það er enn þá þannig — að margir líta á handavinnu, myndmennt, skapandi skrif sem hálfgert föndur fyrir þá sem ekki hafa gaman af að diffra eða heilda. Því þarf að breyta og við þurfum alveg örugglega að mæta ungum krökkum og unglingum á styrkleikunum, vera dugleg við að finna hvaða leiðir þau vilja fara. En ég held að skapandi krakkar sem hafa áhuga á kvikmynda- eða tölvugerð, ritsmíðum, hverju sem er, geti hins vegar alveg nýtt sér hin hefðbundnu fög til að nálgast sinn draum og gera að veruleika. Þannig að ég held að þetta sé bara blanda af hvoru tveggja.