150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:13]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins í tengslum við málið sem er að koma hingað inn á þing um lýðræðisvæðingu, tengt markmiðum þess að koma með stefnumótun um málefni sveitarfélaganna, þá hef ég kynnt mér það og lykilorðið þar kom oft fram í fyrirspurnum. Drjúgur hluti markmiðs þingsályktunarinnar er að auka samtalshlutann í beina lýðræðinu. Það er frábært að áhersla sé lögð á það því að það er mikilvægasti hlutinn af beina lýðræðinu að ná meira og betra samtali. Það er rosalega erfitt að ná þátttöku. Það hefur alltaf verið það. Við þekkjum það líka í starfi stjórnmálaflokkanna. Það er ekkert sjálfsagt að vera með sjálfboðaliða eða að áhugasamir komi þegar boðað er til fundar. Það er alls ekki sjálfsagt. En þetta atriði sérstaklega varðar það að liðka hinn endann sem ég hef ekki séð að nein áhersla sé lögð á enn sem komið er. Áherslan hefur verið á millibilsástandið eftir að tillaga kemur fram og á samtalið í aðdraganda ákvörðunartöku, en ekki á þá varúðarhandbremsu sem málskotsrétturinn eða frumkvæðisrétturinn er. Að því leyti til finnst mér þetta frumvarp í raun fullkomna það ferli sem annars hefur verið í gangi.