150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þetta fína frumvarp og þeim sem að því standa. Flokkur fólksins er algerlega með í því að efla beint lýðræði. Við þurfum að láta það vera hafið yfir allan vafa að það séu ekki allt of fáir sem stjórna öllu þrátt fyrir lýðræðislegt umboð í kosningum hverju sinni. Við hér á hinu háu Alþingi tökum nú ansi stórar og miklar ákvarðanir fyrir heildina og allan fjöldann og það þá í krafti meiri hluta á þingi, ekki kannski vilja borgaranna. Þetta er greinilega liður í því að borgararnir geti hver á sínum stað tekið virkari þátt í að móta a.m.k. umhverfi sitt án þess að horfast í augu við það að það séu bara örfáir einstaklingar, oft sjö í bæjarstjórn, kannski jafnvel færri, og það er þá skipt þannig að það eru kannski fjórir einstaklingar, þrír einstaklingar, sem hafa hreinlega um allt hvað eina að segja. Ég styð þetta frumvarp því fullkomlega. Það er vel að það skuli vera komið fram og ég trúi því að þeir sem eru að vinna að bættri stjórnarskrá, þar sem við ætlum t.d. að leggja aukna áherslu á beint lýðræði, haldi betur utan um þetta. Ég segi þetta sérstaklega þar sem við getum kannski sagt að það þurfi ekki margar krónur úr ríkissjóði í þetta frumvarp — er það nokkuð, hv. þingmaður?