150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:24]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á þetta lágmark og hvað það er vissulega hátt. Þegar við í stjórnmálaflokkunum bjóðum okkur fram söfnum við 300–400 undirskriftum í heilu kjördæmi. Það hefur ekkert verið neitt sérstaklega auðvelt, alls ekki. 2.000 undirskriftir er meira en að segja það í 20.000 manna sveitarfélagi. Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því af því að við höfum margar fregnir og fyrri dæmi um að undirskriftasafnanir hafi safnað þúsundum og tugum þúsunda undirskrifta. 87.000 minnir mig t.d. að hafi verið fjöldi undirskrifta í söfnun á vegum Kára Stefánssonar. En þegar maður fer að telja það saman eru undirskriftasafnanirnar miklu fleiri og afar fáar ná þessum hæðum. Ef það er eitthvað sem við gætum gert — og ég tel að það ætti jafnvel að gera hvað ákvæði stjórnarskrárinnar varðar um 10% hlutfallið — ættum við jafnvel að byrja þar en heimila, svipað og í þessu frumvarpi, ákveðið svigrúm til að lækka, gefa meiri rétt, ekki hækka hlutfallið en mögulega lækka það. Því að við gætum lent í því að sjá eftir nokkrar tilraunir að það er bara of erfitt að ná lágmarki. Ég er alveg á því að það eiga tvímælalaust að vera einhverjir þröskuldar. En hverjir þeir eru höfum við bara ekkert á takteinum eins og er. Það getur líka verið breytilegt eftir kynslóðum. Næsta kynslóð getur verið mjög virk í að safna undirskriftum og að það verði bara hluti af breyttum kúltúr sem við erum ekkert endilega í akkúrat núna. Það að þessi tala sé aðeins sveigjanlegri held ég að væri gott að geta (Forseti hringir.) haft eitthvað um að segja.