150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:35]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, þetta er mjög áhugavert. Í dag er það þannig að ef stjórnmálamaður er að velta fyrir sér málefni og reynir að rýna í það sem hann sér af áliti fjöldans, þá heyrir hann kannski ekki nema mjög háværar raddir og getur misreiknað sig illa vegna þess að á bak við er hinn þögli hópur sem er alltaf að hugsa sinn gang líka og hefur sínar skoðanir. Það getur alveg verið að þegar við horfum á fjölmiðlana og vefmiðlana að við séum alls ekki að fá rétta mynd og þetta hefur nú sýnt sig. Við höfum reynslu af þjóðaratkvæðagreiðslum hér og raunverulega er hún ekkert vond. Hún er bara góð.