150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

háskólastarf á landsbyggðinni.

[15:41]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin og fyrir að leggja enn fremur mikla áherslu á að hún standi vörð um sjálfstæði háskóla á landsbyggðinni og eyða allri óvissu um það. Hér var nefnt velheppnað samstarfsnet háskólanna í landinu sem var komið á í ráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur í menntamálaráðuneytinu. Það hefur heppnast virkilega vel og mikilvægt að styrkja það starf áfram. Það þarf að styðja enn frekar við uppbyggingu rannsókna á landsbyggðinni sem fara fram þar og er stýrt á landsbyggðinni. Því legg ég mikla áherslu á það við ráðherra að það þurfi og ætti að flytja þá rannsóknastarfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands sem nú fer fram í Keldnaholti upp á Hvanneyri og styrkja þannig stöðu skólans og fræðastarfs á staðnum. Ég vil endilega heyra viðhorf ráðherra til þess og hvort hún sé sammála mér í þeim efnum.