150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

mengun skemmtiferðaskipa.

143. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra um mengun frá skemmtiferðaskipum, þ.e. hvort fylgst sé með því með reglubundnum mælingum við hafnir og í nánd við land hvort og hversu mikil mengun sé frá skemmtiferðaskipum. Ef til vill hefði ég átt að hafa spurninguna opnari og spyrja einfaldlega um mengun við hafnir og í nánd við land yfir höfuð, en skemmtiferðaskipin hafa þó þá sérstöðu að leggjast við hafnir í yfirleitt um átta klukkustundir og keyra vélar sínar á meðan. Slíkar mælingar skipta sérstaklega miklu máli í ljósi þess, eins og ég kom reyndar inn á í fyrri fyrirspurn, að enginn umhverfisþáttur hefur jafn neikvæð áhrif á lýðheilsu og loftmengun. Því er mikilvægt að við fylgjumst vel með stöðu mála.

Mælingar Umhverfisstofnunar á loftgæðum á Íslandi eru sannarlega mikilvægar í því samhengi en þó vekur ávallt athygli mína þegar ég skoða kortið þeirra á heimasíðunni hjá þeim, sem er mjög flott, að ekki virðist vera þörf á að mæla loftgæði nema á örfáum stöðum á landinu. Sem dæmi má nefna að engir mælar eru staðsettir á Vesturlandi utan Hvalfjarðar. Engir mælar eru á Vestfjörðum og engir mælar á Suðurlandi utan Hveragerðis. Þeir eru sömuleiðis fáir á Austfjörðum, fyrir utan náttúrlega í kringum álverið á Reyðarfirði.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er fylgst með mengun frá skemmtiferðaskipum sem heimsækja Ísland með reglubundnum mælingum við hafnir og í nánd við land? Ef svo er, hverjar hafa niðurstöðurnar verið? Ef svo er ekki, stendur til að koma á slíkum reglubundnum mælingum? Einnig spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hann telji rétt að bregðast við mengun frá skemmtiferðaskipum sem heimsækja Ísland.

Ég óttast því miður að svör hæstv. ráðherra verði á þá leið að ekki sé verið að fylgjast með mengun við hafnir eða mengun frá skemmtiferðaskipum með reglubundnum hætti en vona sannarlega að hann telji rétt að bæta úr því. Kannski er mengunin nefnilega minni en við óttumst en kannski er hún líka meiri. Lykillinn er þó í mínum huga að fá upplýsingarnar því að öðruvísi er ekki raunhæft að taka upplýstar ákvarðanir og öðruvísi fáum við heldur ekki upplýsta umræðu í samfélaginu um málið.