150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

mengun skemmtiferðaskipa.

143. mál
[17:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn sem ég tek undir með henni að er mjög mikilvægt að ræða á Alþingi og í samfélaginu. Eftirlit með þáttum er snúa að mengun frá skipum er á hendi a.m.k. þriggja aðila, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og síðan þeirrar hafnar sem skip liggur við hverju sinni. Samgöngustofa sinnir m.a. eftirliti með búnaði skipa vegna mengunarvarna og Umhverfisstofnun hefur eftirlit með gæðum eldsneytis sem er markaðssett hér á landi, þar á meðal brennisteinsinnihaldi.

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með loftgæðamælingum. Þær sem eiga sérstaklega að skoða mengun frá skemmtiferðaskipum hafa verið gerðar á Seyðisfirði. Þar er um að ræða mælingar á brennisteinsdíoxíði og svifryki sem hófust fyrr á þessu ári og halda áfram fram á næsta ár. Úttekt á þeim mælingum sem nú standa yfir liggur ekki fyrir en þó má sjá einhverja hækkun á mældum efnum þegar skip eru í höfn. Það er mikilvægt að við erum að fá vísbendingar um það nú þegar. Það var gerð úttekt á Akureyri til að reyna að greina áhrif útblásturs skemmtiferðaskipa á loftgæði þar. Þar varð niðurstaðan sú að áhrifin væru mjög lítil og vart mælanleg í fastri mælistöð Umhverfisstofnunar á Akureyri. Þá ber að geta að við staðarval mælistöðvarinnar var aðallega horft til þess að hún mældi mengun frá bílaumferð og að annað staðarval væri heppilegra ef mæla ætti sérstaklega loftmengun frá skipum. Ég hygg að hv. þingmaður sé vel inni í þessu.

Í Reykjavík eru loftgæðamælistöðvar ekki í næsta nágrenni við hafnarsvæði. Þær mælistöðvar sem eru næstar Skarfabakka, þar sem flest skemmtiferðaskipin leggjast að bryggju, eru í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sem er um 1,9 km frá Skarfabakka, við Njörvasund og við Grensásveg. Mengunartoppar sem mætti augljóslega rekja til skemmtiferðaskipa hafa ekki verið sjáanlegir í þessum mælistöðvum.

Undanfarin þrjú ár hafa Faxaflóahafnir látið reikna losun brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og svifryks frá öllum skipum sem leggjast að bryggju í höfnum í þeirra umsjón, íslenskra sem erlendra. Ég vek athygli á því að um helmingur losunarinnar kemur frá flutningaskipum, um þriðjungur frá skemmtiferðaskipum og afgangurinn frá fiskiskipum og öðrum skipum. Ég tel að þetta séu mjög mikilvægar upplýsingar inn í þá umræðu sem hér er í gangi.

Ég tel rétt að skoða loftmengun frá skemmtiferðaskipum í samhengi við almenna stefnu varðandi loftgæði, líkt og hv. þingmaður kom inn á áðan, þannig að við reynum að tryggja eftir föngum að loftmengun valdi ekki skaða á heilsu. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nýlega gefið út fyrstu almennu áætlunina um loftgæði fyrir Ísland sem gildir fyrir tímabilið 2018–2029 og ber heitið Hreint loft til framtíðar. Markmið hennar er að draga úr heilsuspillandi loftmengun þótt almennt sé hún með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Jafnframt hefur verið skipaður stýrihópur sem hefur það hlutverk að hafa umsjón með framkvæmd áætlunarinnar.

Nú er verið að grípa til aðgerða sem munu draga úr loftmengun frá skipum því að leyfilegt hámarksinnihald brennisteins í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi hefur verið 3,5% en með breytingu á reglugerð sem á að koma til framkvæmda um næstu áramót, og ég mun brátt skrifa undir, verður gjörbreyting á þessum kröfum. Þar verður leyfilegt innihald brennisteins í eldsneyti skipa innan íslenskrar landhelgi, þ.e. í öllum fjörðum, flóum og á öllu innsævi, að hámarki 0,1%. Þetta þýðir að ekki verður hægt að nota svartolíu í landhelginni nema með öflugum mengunarvarnabúnaði sem þá hreinsar hana. Þetta er sennilega það metnaðarfyllsta sem við höfum séð í þessum málum, augljóslega hérlendis en líka í alþjóðlegu samhengi. Það er þegar bannað að brenna svartolíu til rafmagnsframleiðslu skipa í höfnum en breytingin sem ég hef hér nefnt ætti að bæta loftgæði þar sem skemmtiferðaskip koma til hafnar og að strandsvæðum þar sem skipin koma nærri landi.

Ég teldi æskilegt að skemmtiferðaskip notuðu rafmagn frá landi þegar þau liggja við bryggju. Gróft mat hefur bent til þess að kostnaður við háspennutengingar fyrir stór skip á borð við skemmtiferðaskip sé hins vegar mjög mikill og nýtingartíminn mjög stuttur sem myndi þýða að slíkt væri kannski síður hagkvæmt en margar aðrar aðgerðir í loftslagsmálum ef litið er til þessara þátta. Það er þó þróun í tækni á þessu sviði og ég tel rétt að skoða slíka möguleika betur í samvinnu við orkufyrirtæki og aðra og til lengri tíma litið finnst mér einsýnt að raftenging eða þá annað endurnýjanlegt eldsneyti sé notað fyrir öll skip við bryggju. Þar þurfum við að beita skynsamlegri forgangsröðun svo við náum sem mestum árangri fyrir þá fjármuni sem eru hverju sinni í loftslagsmálum.