150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

mengun skemmtiferðaskipa.

143. mál
[17:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vil einnig þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og þessa umræðu vegna þess að þetta er mál sem varðar okkur miklu. Mengun frá skemmtiferðaskipum er ekki bara útblástur. Við erum með smærri skemmtiferðaskip sem fara inn á mjög viðkvæm svæði í kringum landið. Að vísu þykist ég vita að búið sé að setja einhverjar reglur, t.d. varðandi friðlandið á Hornströndum, en ég efast sannarlega um að þar sé nógu langt gengið. Við skulum gá að því að stærsta skip sem kom til Íslands í sumar hafði um borð fullskipað 6.000 manns. Þessi skip eru á stærð við meðalsveitarfélag á Íslandi og þess vegna þurfum við að aðgæta það að þau séu ekki að menga, ekki bara með brennslunni heldur einnig með úrgangi o.s.frv. Það segir sig sjálft að úrgangur og annað frá svona „sveitarfélagi“ er ekkert smotterí. Ég hvet ráðherra eindregið til að herða þær reglur enn sem settar hafa verið, (Forseti hringir.) t.d. um Hornstrandafriðlandið, og að við berum gæfu til að fylgjast betur með því hvað þessi skip eru að menga virkilega á allan hátt.