150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Það er alltaf verið að hanna og þróa eitthvað nýtt. Þróunin heldur áfram og leiðir margt gott af sér, margt gott sem auðveldar fólki lífið og eykur hagkvæmni. Nú er eitt slíkt mál mikið í umræðunni, allt sem byrjar á rafmagns, svo sem rafmagnshjól, rafmagnsskutlur rafmagnsvespur, rafmagnshlaupahjól, golfhjól og golfbílar. Allt er þetta gert til að auka frelsi fólks til að fara á milli staða, fjölga samgöngumátum, vinna að orkuskiptum, heilnæmari samgöngum og umhverfisvænni, en þá er strax farið að horfa á þetta sem vandamál. Nú þurfum við að fara að setja reglur og lög og reyna að hamla þessari þróun af því að mögulega gæti einhver meitt sig. Við þurfum einhvern veginn að tryggja að svona mikilvæg þróun fái að fara sínu fram án þess að við stökkvum til, grípum inn í og þvælumst fyrir nema að vel athuguðu máli þegar eitthvað raunverulegt liggur fyrir um að um sé að ræða vandamál og að lausnin sé þá skynsamleg út frá því vandamáli sem er komið upp.

Eldri borgarar eru sumir búnir að kaupa sér rafmagnsskutlur sem gera þeim kleift að leggja bílnum og halda samt frelsi sínu en nú er allt í einu orðið vesen að flytja inn ýmis tæki sem hafa gengið í nokkur ár af því að það er orðið óljóst hver hjá ríkinu á að segja að þau séu í lagi og fólki ekki hættuleg. Svona getum við ekki látið þetta ganga. Báknið burt.