150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

sviðslistir.

276. mál
[16:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Erindi mitt hingað upp er þríþætt. Það er í fyrsta lagi að þakka fyrir að svona frumvarp skuli núna vera komið fram. Í öðru lagi langaði mig að spyrja aðeins meira út í einmitt aðgengið og í þriðja lagi rennur mér stundum blóðið til skyldunnar þar sem ég er gamall dansari, þótt það hafi ekki verið á klassíska sviðinu, og hér er einmitt verið að fjalla um Íslenska dansflokkinn. Í fyrsta lagi skiptir ofboðslega miklu máli að það sé góð umgjörð um menningu og listir og því meira sem við styðjum við það, þeim mun betra. Skapandi hugsun verður megineiginleiki í framtíðarsamfélaginu sem óskað verður eftir. Það er vissulega talað um þessa starfsemi úti um allt land en við þekkjum hins vegar að þeir menningarsamningar sem hafa verið gerðir við önnur byggðarlög eru ekki sambærilegir við þá uppbyggingu sem er hér. Ég skil að hér þurfi meginstofnanirnar að vera. Í fjölmenninu þurfa auðvitað Þjóðleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn að vera og ég geri ekki athugasemd við það og það má alls ekki minnka þær upphæðir sem fara þangað.

En ég spyr þegar við sjáum hins vegar vaxa og dafna um áratugi atvinnuleikhús, t.d. á Akureyri, núna nýtt á Vestfjörðum, hvort ekki þurfi einhvern veginn að horfa á þá stöðu og jafna hlut þar á milli. Í öðru lagi langar mig að spyrja hvort ekki þyrfti að vera metnaðarfyllri áform um það að allir eigi raunverulega möguleika á því að sækja þessa viðburði. Það er dýrt að fara í leikhús og það er dýrt að fara á ballettsýningu. Það er hins vegar nokkuð sem á að vera öllum aðgengilegt, líka þeim sem koma frá efnaminni fjölskyldum.