150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

matvæli.

229. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér á ný frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum, um sýklalyfjanotkun. Málið er í sjálfu sér tiltölulega einfalt. Í 1. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, svohljóðandi:

Fyrirtæki sem hafa með höndum smásölu matvæla skulu tryggja með merkingum í sölurýmum að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um upprunaland matvælanna og meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í viðkomandi landi. Matvælastofnun skal árlega gefa út leiðbeiningar um miðlun upplýsinga um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla.“

Málið á sér nokkurn aðdraganda og er skylt öðru máli sem var flutt af Miðflokknum en 1. flutningsmaður þess máls er Þorgrímur Sigmundsson varaþingmaður. Það mál gengur út á að merkja matvæli með kolefnismerkingu þannig að viðskiptavinir geri sér grein fyrir því þegar þeir kaupa matvæli hvert kolefnisspor þeirra er. Það mál hefur verið flutt tvisvar sinnum áður, á 149. þingi og nú, á 150. þingi, þegar Þorgrímur Sigmundsson var síðast hér inni sem varaþingmaður.

Mál þetta snýst um að upplýsa neytendur um hvaða vörur standa þeim til boða í verslunarrýmum þannig að þeir geri sér grein fyrir því hvaða vörur þeir eru að setja ofan í innkaupakörfuna, hvort þeir eru að velja vöru frá svæðum þar sem mikil lyfjanotkun er eða vöru frá svæðum þar sem lyfjanotkun er lítil. Í ársbyrjun 2017 birti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lista yfir sýklalyfjaónæmar bakteríur þar sem stofnunin flokkaði 12 ættir baktería eftir áhættuflokkum. Haustið 2019 varaði stofnunin við því að jarðarbúar væru að verða uppiskroppa með nothæf sýklalyf og hvatti til þróunar nýrra lyfja. Aðalframkvæmdastjóri stofnunarinnar lýsti því svo yfir 20. september 2017 að neyðarástand væri að skapast í meðhöndlun sjúklinga vegna sýklalyfjaónæmis.

Þá er hér vitnað í skýrslu sem unnin var í Bretlandi um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum og þar kemur fram að árlega látist um 700.000 manns á heimsvísu af völdum slíkra baktería.

Lagt er til að til þess að koma upplýsingum á framfæri við neytendur gefi Matvælastofnun út leiðbeiningar um miðlun upplýsinga um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla og hugmyndin er að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingunum í sölurýmum. Lyfjastofnun Evrópu gefur árlega út skýrslu um sölu sýklalyfja sem notuð eru á dýr í 30 ríkjum Evrópu. Í þeirri skýrslu má finna upplýsingar um notkun sýklalyfja í helstu innflutningsríkjum Íslands. Það eru einmitt þær upplýsingar sem við eigum að koma á framfæri við neytendur.

Hæstv. forseti. Mig langar að nefna aðrar mögulegar leiðir til að koma upplýsingum til neytenda og í rauninni held ég að neytendur hafi rétt á að sjá slíkt skýrt. Þær varða lyfjanotkunina og kolefnissporið sem matvælin skilja eftir sig. Þær upplýsingar eiga ekki bara að liggja fyrir í verslunum að mínu mati eða standa utan á vörum sem eru seldar, þar eru upprunamerkingarnar einnig. Upprunamerkingar á matvælum í dag eru mjög litlar, matvaran er illa merkt. Slíkar merkingar þurfa að vera skýrari og meira áberandi. Síðan held ég að mikilvægt sé að veitingahús taki upp merkingar á matseðlum sínum þannig að þegar við förum á veitingahús og veljum okkur eitthvað að snæða getum við séð kolefnisspor réttarins eða hráefnisins sem og upprunaland, mögulega lyfjanotkun og þess háttar. Við þurfum að bregðast við ákallinu um að upplýsingar til neytenda séu skýrari og betur framreiddar.

Ég vona að sjálfsögðu að málið fái góða meðhöndlun í nefndinni. Ég fer fram á að því verði vísað til atvinnuveganefndar. Mér finnst að klára eigi þetta mál sem og mál hv. varaþingmanns Þorgríms Sigmundssonar þannig að hægt sé að koma því sem fyrst við að verslunin sinni þeirri upplýsingaskyldu gagnvart neytendum sem okkur finnst hún eiga að sinna og að sjálfsögðu framleiðendur varanna einnig svo að neytendur hafi skýrt val þegar þeir versla inn fyrir heimilið.