150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

lífeyrissjóðir og fjárfestingar.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn sem snýr að því hvernig við getum tryggt að það sem við erum að gera, til að mynda þegar kemur að stjórn opinberra fjármála, þjóni loftslagsmarkmiðum. Ég er viss um að ég og hv. þingmaður erum sammála um að það er mikilvægt að þegar stefnan er sett til framtíðar vinni ólíkir hlutar kerfisins saman og þegar við setjum okkur markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda séum við ekki að ýta undir aukna losun með öðrum ráðstöfunum. Eins og hv. þingmaður nefnir og spyr sérstaklega um hefur þessi ríkisstjórn kynnt annars vegar grænar ívilnanir. Við höfum þegar séð töluvert umfang þeirra sem hafa vaxið í formi ívilnana til vistvænna ökutækja. Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis kynnt ívilnanir til rafknúinna hjóla og reiðhjóla til að ýta undir slíka samgöngumáta sem á að gera fólki auðveldara um vik að ferðast með þeim hætti. Sömuleiðis höfum við kynnt hugmyndir um aukna fjárfestingu í almenningssamgöngum sem er annar máti til að breyta ferðavenjum þannig að hægt sé að draga úr losun og þá er ég auðvitað að vísa til eins af eftirlætisviðfangsefnum hv. þingmanns sem er svokölluð borgarlína.

Hv. þingmaður spyr hvort ég ætli að hlutast til um fjárfestingar lífeyrissjóða og lítur þar með á ræðu mína á Norðurlandaráðsþingi sem einhvers konar tilmæli en þannig má ekki túlka þá ræðu. Hins vegar tel ég eðlilegt að bæði hið opinbera og lífeyrissjóðir skoði möguleikana á fjárfestingu í grænum skuldabréfum. Ég hef viðrað þær hugmyndir að íslenska ríkið færi í greiningu á því hvað felist í þessu af því að ég vil ekki taka ákvörðun um slíkt og tel eðlilegt að stjórnvöld taki ekki ákvarðanir um slíkt nema að vel ígrunduðu máli. En eins og ég sagði í ræðunni finnst mér ekki óeðlilegt að þetta sé skoðað bæði af hinu opinbera og lífeyrissjóðum, að sjálfsögðu að undangenginni skoðun á slíkum kostum.