150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[15:26]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er kerfið flókið og skerðingarnar innan þess líka. Þess vegna höfum við talað fyrir einföldun á kerfinu. Það er auðvitað svoleiðis með öll mannanna verk og verk þingsins líka að við getum alltaf rætt hvort við getum ekki gert betur. Hins vegar held ég að á þeim tíma, þegar við vorum að ákveða að draga úr skerðingunum þannig að þær nálguðust það sem er gagnvart eldri borgurum, hafi verið skynsamlegt að gera það. Ég held að það hefði ekki verið skynsamlegt að hætta við þær breytingar en, eins og ég segi, ef við hefðum ætlað að ráðast í breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt var það ekki til umræðu á þeim sama tíma. Það er frumvarp sem í fyrsta lagi myndi heyra undir annan ráðherra og í öðru lagi hefði það krafist meiri vinnu en svo að við gætum gert það á þeim tímapunkti.

En er skynsamlegt að fara í breytingar á því og skoða möguleikann á því að einhverjir aðilar sem njóta tekna innan almannatryggingakerfisins yrðu undanþegnir eða það orðað með öðrum hætti og hætt að vitna til laga um tekju- og eignarskatt? (Forseti hringir.) Það getur verið skynsamlegt að fara í þann leiðangur að skoða þá þætti og ég er tilbúinn til að fara í þá vinnu með hv. þingmanni eða þinginu í heild sinni ef það er vilji til þess. Þá þarf samt að skoða það heildstætt en ekki bara gagnvart einstaka málum.