150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

framlög til fatlaðra og öryrkja.

[15:30]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vitnar til þess í ræðu sinni að það sé einungis 3,4% hækkun á næsta ári sem nái ekki upp í þær hækkanir sem voru m.a. gerðar í kjarasamningum. Almannatryggingakerfið tekur breytingum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Laun eru ekki tengd vísitölu neysluverðs. Laun hækka ekki sjálfkrafa en það gera almannatryggingarnar. Við þurfum því að taka þetta í því samhengi að hækkanirnar koma á öðrum tímapunkti en gagnvart kjarasamningum.

Hins vegar er algjörlega skýrt að hækkun til örorkulífeyrisþega og til þessa málaflokks stendur til af hálfu ríkisstjórnarinnar. Á síðasta ári veittum við 2,9 milljarða til þess m.a. að draga úr skerðingum. Á næsta ári er gert ráð fyrir 1,1 milljarði og samhliða því, það er skýrt í stefnu þessarar ríkisstjórnar, ætlum við okkur að bæta kjör örorkulífeyrisþega en það verður jafnframt að gerast samhliða því sem við ráðumst í ákveðnar kerfisbreytingar varðandi almannatryggingakerfið og endurhæfingarkerfið. Það er það sem ríkisstjórnin vinnur að. Við erum með í undirbúningi frumvörp og annað sem er á þingmálaskrá á vorþingi sem snýr að því að gera breytingar hvað það snertir. Við sjáum því miður allt of mikið nýgengi örorku og jafnvel þó að einhverjar skýrslur hafi sýnt aðeins aðra mynd sjáum við engu að síður árlega of mikið fjármagn fara vegna nýgengis örorku. Samhliða því sem við ætlum að gera breytingar til að draga úr því að ungt fólk falli út af vinnumarkaði ætlum við að bæta kjör þessa hóps. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að ekki sé nægilega vel gert við þennan hóp af hálfu stjórnvalda og þess vegna ætlum við að gera betur.