150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

fjárframlög til Skógræktarinnar.

[15:54]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en eins og kom fram í því er þetta samt skerðing og ég get ekki skilið það öðruvísi en hún sé fyrir hendi í fjárlagafrumvarpinu. Þrátt fyrir breytingar á fjármunum varðandi Straums- og Mógilsárpeningana eru þetta 104 milljónir, sem er náttúrlega bagalegt á þeim tíma þegar við eigum að vera að bæta í skógrækt. Skógræktin vinnur mjög gott starf í gæðaeftirliti sínu og hefur t.d. gert 700 tilraunareiti o.fl. sem er verið að taka út til þess að skógræktin nái sem mestum árangri. Þá erum við að tala um nytjaskógrækt. Varðandi skiptingu á þessum 200 milljónum hef ég hingað til skilið það þannig að lagt hefði verið upp með að jöfn hlutföll væru milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í þeim málum, (Forseti hringir.) en Skógræktin virðist einungis fá 32 milljónir. Mér leikur forvitni á að vita hvers vegna.