150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[15:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar til að þakka ráðherra fyrir að bregðast svo vel við og vera við þessa umræðu um þann mikla vanda sem blasir við okkur. Það má segja að geisi faraldur í landinu í því að geðrænir kvillar, oft tengdir eiturlyfjaneyslu, eru sífellt að aukast með hörmulegum afleiðingum. Það virðist sem geðsvið Landspítalans ráði ekki við það álag sem því fylgir. Mig langar í þessari umræðu að við öll hér getum stillt saman strengi og orðið til þess að gera ráðstafanir nú þegar til að draga úr því fári og reyna að koma í veg fyrir fleiri dauðsföll eins og við mögulega getum.

Ég get ekki neitað því að það leitar á mig saga ungrar stúlku, sem ég hef leyfi til að segja, sem er kannski dæmigerð fyrir það sem kemur fyrir fólk í þessari aðstöðu. Hún greindist með erfiðan taugasjúkdóm mjög ung að aldri og var sett á lyf við því. Hún varð fyrir hrottalegri nauðgun þegar hún var 16 ára gömul og sá atburður fylgdi henni, það áfall, í gegnum dómskerfið aftur og aftur þar til að meintur brotamaður var að lokum sýknaður. Þetta varð henni mjög þungt áfall og smátt og smátt sogaðist hún inn í meiri lyfjaneyslu, lyfseðilsskyld lyf, og geðsjúkdómur hennar óx í leiðinni. Hún var nokkrum sinnum gerð afturreka þegar hún mætti á geðdeild með sjálfsvígshugsanir, útskrifuð, send í burtu. Hún reyndi ítrekað að svipta sig lífi og í fimmtu tilraun nú í sumar tók hún sitt eigið líf, þessi unga stúlka.

Við getum ekki endurheimt hana eða aðra sem hafa mætt svipuðum örlögum en við getum með markvissum aðgerðum reynt að koma í veg fyrir að fleiri fari þá leið. Að mínu áliti, og ég vil spyrja ráðherrann um það, þarf að ganga í stjórnsýsluúttekt á geðsviði Landspítalans og meta álagið. Það þarf að gera breytingar á verkferlum. Það þarf að efla og samþætta starfsemi SÁÁ, t.d. í afeitrun. Það þarf að setja betri ramma utan um önnur úrræði eins og t.d. Krýsuvík. Ef allt þetta vinnur saman getum við vonandi gert eitthvað til að hnika þeim málum áfram. Við gerum það ekki með því að stofna nefnd eða með því að búa til langa stefnu. Við þurfum að gera eitthvað núna.

Ég er alveg viss um það, hæstv. ráðherra, að í þessum sal eru allir tilbúnir að leggja því lið að breyta aðstöðunni í þeim málum. Við þurfum meiri fjármuni þarna inn og ég er sannfærður um að hér er vilji til að það geti orðið. Því langar mig við þessa umræðu að heita á ráðherra að leita þegar í stað samkomulags við alla þingflokka um að við getum gert róttækar breytingar í þeim málum, róttækar aðgerðir núna strax. Við megum ekki við því að missa börnin okkar, ungt fólk í blóma lífsins, fólk sem við vonum og viljum að taki við þessu þjóðfélagi einhvern tíma, við megum ekki missa þetta unga fólk á þennan hátt. Því bið ég ráðherra að koma með okkur í þá vegferð að grípa til aðgerða nú þegar og ég er alveg sannfærður um að hún mun mæta vilja í þessum þingsal til að það sé hægt. Við skulum bara bretta upp ermarnar og við skulum byrja þegar í stað, það má engan tíma missa. Við erum að missa af lestinni, við skulum hefjast handa strax.